Erlent

Jacob Zuma tapaði fyrir rétti í tvígang

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Jacob Zuma, forseti Suður-Afríku.
Jacob Zuma, forseti Suður-Afríku. Nordicphotos/AFP
Jacob Zuma, forseti Suður-Afríku, tapaði fyrir rétti í gær í tveimur aðskildum spillingarmálum. Annars vegar féllst dómari á kröfu spillingareftirlitssamtaka um að skikka Zuma til að skipa nefnd til að rannsaka ásakanir gegn honum og hins vegar komst dómari að þeirri niðurstöðu að Zuma hefði brotið af sér þegar hann reyndi að nota dómstóla til að koma í veg fyrir birtingu sem sýndi fram á spillingu innan ríkisstjórnarinnar.

Zuma hefur verið forseti Suður-Afríku undanfarin átta ár fyrir hönd Afríska þjóðarráðsins. Alla sína valdatíð hefur Zuma verið sakaður um spillingu og alltaf hefur hann neitað slíkum ásökunum. Hann mun hins vegar víkja úr embætti leiðtoga flokksins í næstu viku og mun hann ekki verða í framboði í forseta­kosningunum árið 2019.

Þetta eru ekki fyrstu málin sem eru höfðuð gegn Zuma. Fyrr á þessu ári var honum gert að skipa nefnd til að rannsaka hvort hann hafi hagnast ólöglega á sambandi sínu við hina auðugu Gupta-fjölskyldu. Í fyrra var honum gert að endurgreiða ríkissjóði fé sem hann nýtti til að ráðast í lagfæringar á heimili sínu í Nkandla. Hann var hins vegar sýknaður af nauðgun árið 2006 og sömuleiðis var spillingarmál gegn honum frá árinu 2005 fellt niður skömmu síðar.




Tengdar fréttir

Zuma stóð af sér vantraust

Jacob Zuma, forseti Suður-Afríku, stóð í gær af sér tillögu um vantraust innan miðstjórnar stjórnarflokksins ANC.

Vilja losna við forsetann

Þingmenn í Suður-Afríku munu greiða nafnlaust atkvæði um vantrauststillögu á Jacob Zuma, forseta landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×