Erlent

Íhaldsmenn biðu ósigur eftir uppreisn flokksmanna

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. Vísir/EPA.
Ríkisstjórn Theresu May beið ósigur í neðri deild breska þingsins í kvöld þegar breytingartillaga við lagafrumvarp stjórnarinnar um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu var samþykkt.

Tillagan var samþykkt með 309 atkvæðum gegn 305 og samkvæmt henni verður samningur um útgöngu Bretlands lagður fyrir þingið til samþykktar. Þingmaður Íhaldsflokksins, flokks Theresu May forsætisráðherra, lagði fram breytingartillöguna og kusu 11 þingmenn íhaldsflokksins með henni. Þar af voru átta þeirra fyrrverandi ráðherrar.

Einn þeirra, Stephen Hammond, var látinn fjúka sem varaformaður flokksins í London eftir atkvæðagreiðsluna.

„Í kvöld setti ég land og umdæmi mitt ofar flokkshagsmunum og kaus með eigin sannfæringu til að atkvæðagreiðslan hefði þýðingu,“ sagði Hammond á Twitter síðu sinni.

Ríkisstjórnin sagði niðurstöðuna vera vonbrigði, en þetta er í fyrsta sinn sem stjórnin tapar atkvæðagreiðslu um Brexit í neðri deild þingsins.

Jeremy Corbyn, leiðtogi verkamannaflokksins segir niðurstöðuna niðurlægjandi fyrir forsætisráðherrann, sem heldur til Brussel á morgun á fund við aðra leiðtoga Evrópuríkjanna. Fyrr í dag samþykkti Evrópuþingið að viðræður gætu hafist um næsta áfanga úrsagnar Breta úr ESB.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×