Enski boltinn

Pep á nú metið á Spáni, í Þýskalandi og í Englandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola með ungum aðdáanda.
Pep Guardiola með ungum aðdáanda. Vísir/Getty
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, stýrði sínu liði til sigurs í fimmtánda deildarleiknum í röð í gærkvöldi en ekkert lið í sögu enska boltans hefur náð því áður.

City hefur nú unnið alla deildarleiki sína frá því að liðið gerði 1-1 jafntefli við Everton í fyrsta leik Gylfa Þórs Sigurðssonar með Everton-liðinu. Sá leikur fór fram 21. ágúst eða fyrir 115 dögum.

Með því að ná þessu meti hefur Guardiola náð metaþrennu í þremur af stærstu deildunum í evrópska fótboltanum.





Guardiola hafði áður stýrt Barcelona til sigurs í 16 leikjum í röð (Real Madrid náði að jafna það undir stjórn Zinedine Zidane) og svo stýrði hann Bayern München til sigurs í 19 leikjum í röð.

Sextán leikja sigurgangan með Barcelona endaði í febrúar 2011 en nítján leikja sigurgangan með Bayern München endaði í mars 2014. Ekkert félag í fimm bestu deildum Evrópu hefur unnið fleiri leiki í röð en lið Guardiola hjá Bayern þetta 2013-14 tímabil.

Manchester City liðið er á þvílíkri siglingu og gæti mögulega orðið fyrsta liðið til að vinna tuttugu deildarleiki í röð.

Pep Guardiola og lærisveinar hans í Manchester City hafa ennfremur náð 49 stigum út úr fyrstu 17 leikjum sínum sem ekkert félag hefur afrekað áður í efstu deild á Englandi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×