Erlent

Norðmenn hyggjast afglæpavæða fíkniefnaneyslu

Atli Ísleifsson skrifar
Fíkniefnavandinn er mikill í Noregi og er áætlað að um 260 manns að meðaltali hafi látið lífið vegna ofneyslu á hverju ári á síðustu árum.
Fíkniefnavandinn er mikill í Noregi og er áætlað að um 260 manns að meðaltali hafi látið lífið vegna ofneyslu á hverju ári á síðustu árum. Vísir/Getty
Meirihluti flokka á norska þinginu hafa náð saman um að afglæpavæða fíkniefnaneyslu í landinu. Þannig eigi ekki að refsa og dæma fólk í neyslu heldur að bjóða þeim aðstoð við að losna undan fíkninni.

Frá þessu var greint í norskum fjölmiðlum í gær en Verkamannaflokkurinn, Hægriflokkurinn, Sósíalíski vinstriflokkurinn og frjálslyndi flokkurinn Venstre standa að baki standa að baki samkomulaginu.

Þetta er fyrsta skrefið í átt að nýrri stefnu norskra stjórnvalda í fíkniefnamálum þar sem ábyrgð á þeim vanda sem fylgja fíkniefnaneyslu fólks færist frá dómskerfinu og til heilbrigðiskerfisins.

Fíkniefnavandinn er mikill í Noregi og er áætlað að um 260 manns að meðaltali hafi látið lífið vegna ofneyslu á hverju ári á síðustu árum.

Breytt áhersla lögreglu

Með breytingunni er hugsunin sú að fleiri fái hjálp við fíkninni og að lögregla eigi að leggja áherslu á að ná til þeirra sem selja, framleiða og dreifa efnunum.

Bent Høie, ráðherra lýðheilsumála í Noregi, hefur áður nefnt Portúgal sem gott dæmi um land þar sem hægt er að ná árangri þegar ábyrgðin er færð frá dómskerfinu til heilbrigðiskerfisins, auk aukinnar áherslu á forvarnir. Fíkniefnaneysla var afglæpavædd í Portúgal árið 2001.

Ekki lögleiðing

Sérstök sendinefnd á vegum félagsmálanefnd norska Stórþingsins mun ferðast til Portúgals í febrúar til að kynnast nálgun Portúgala betur.

Afglæpavæðing fíkniefnaneyslu er frábrugðin lögleiðingu fíkniefna að því leyti að fíkniefni eru enn ólögleg, en að fólk í neyslu og þeir sem bera smærri skammta af fíkniefnum ætlaða til einkaneyslu hafa ekki gerst brotlegir við lög og geta gengist undir meðferðarúrræði í stað þess að hljóta dóm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×