Erlent

Sautján féllu í sjálfsmorðssprengjuárás í Sómalíu

Kjartan Kjartansson skrifar
Sprengjuárásir al-Shabab-hryðjuverkasamtakanna hafa verið tíðar í Mógadisjú. Myndin er frá eftirleik bílsprengju þar í október.
Sprengjuárásir al-Shabab-hryðjuverkasamtakanna hafa verið tíðar í Mógadisjú. Myndin er frá eftirleik bílsprengju þar í október. Vísir/AFP
Íslamskur öfgamaður, dulbúinn sem lögreglumaður, myrti að minnsta kosti sautján manns og særði tuttugu aðra þegar hann sprengdi sjálfan sig í loft upp í lögregluskóla í Mógadisjú, höfuðborg Sómalíu í morgun.

Lögreglumennirnir voru við æfingar fyrir hátíð til heiðurs lögreglunni sem átti að halda 20. desember þegar árásarmaðurinn lét til skarar skríða, að því er segir í frétt AP-fréttastofunnar. Honum tókst að komast inn án þess að neinn tæki eftir og slóst í hóp lögreglumannanna sem voru að æfa skrúðgöngu.

Mohamed Hussein, varðstjóri hjá lögreglunni í Mógadisjú, segir að árásarmaðurinn hafi sprengt sprengjuna sem hann var með innanklæða þegar nærvera hans var farin að vekja grunsemdir. Ljóst sé að árásarmaðurinn hafi ætlað sér að valda eins miklum mannskaða og hægt væri.

Hryðjuverkasamtökin al-Shabab hafa lýst yfir ábyrgð á ódæðinu. Þau hafa staðið fyrir fjölda sprengutilræða í Mógadisjú, þar á meðal meiriháttar sprengjuárás sem varð 512 manns að bana í október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×