Umfjöllun og viðtöl: KR - Þór Þ. 96-83 | Fjórði deildarsigur KR í röð

Anton Ingi Leifsson í DHL-höllinni skrifar
Kristófer Acox.
Kristófer Acox. vísir/stefán
KR vann fjórða deildarleikinn í röð þegar liðið bar sigurorð af Þór úr Þorlákshöfn, 96-83, í síðustu umferð Dominos-deildar karla fyrir jól. KR leiddi í hálfleik, 53-51.

Eftir sigurinn er KR með sextán stig á toppi deildarinnar, en Þór úr Þorlákshöfn er áfram með átta stig í níunda sætinu og ljóst að það verður hörkubarátta hjá þeim að ná úrslitakeppnissæti.

Gestirnir úr Þorlákshöfn byrjuðu af miklum krafti, en mikill kraftur og orka fylgdi þeirra leik. Það virtist koma heimamönnum eitthvað í opna skjöldu, en þeir áttu fá svör við öflugum sóknarleik gestanna í fyrsta leikhluta. Þristunum rigndi og þá sérstaklega frá DJ Balentine.

KR var þó að spila ágætlega sóknarleg sem leiddi til þess að munurinn var ekki nema þrjú stig eftir fyrsat leikhlutann, 32-29. Í öðrum leikhluta var svipað uppi á teningnum, en KR náði að komast yfir áður en liðin gengu til hálfleiks, 53-51.

Það var í fyrsta skipti sem KR komst yfir frá því í stöðunni 3-2, en fyrri hálfleikurinn var nánast eign Þórsara frá upphafi til enda. Því líklega svekkjandi fyrir þá að vera ekki yfir eftir eins fínan fyrri hálfleik og raun bar vitni, en um það er ekki spurt.

Í síðari hálfleikinn kom allt annað KR lið. Liðið herti varnarleikinn til muna og til marks um það þá skoraði Þórs-liðið einungis tvö stig fyrstu fimm mínúturnar í síðari hálfleik. Þegar þeir virtust vera komnir í góða forystu slökuðu þeir aftur á klónni og ólseigir Þórsarar minnkuðu muninn í 66-65.

Eftir þriðja leikhlutan var munurinnn þó sex stig, 76-70, KR í hag. Þeir byrjuðu fjórða leikhlutann á 5-0 kafla og eftir það var ekki aftur snúið. KR snéri ekki til baka og unnu að lokum 13 stiga sigur, 96-83, eftir hetjulega baráttu gestanna úr Þorlákshöfn.

Afhverju vann KR?

Þetta var svokallaður seiglusigur hjá Íslandsmeisturunum. Þeir sýndu engar glans hliðar, en með nokkrar syrpum hér og þar náðu þeir að knýja fram x stiga sigur. Þeir  fengu gott framlag frá nokkrum leikmönnum á mikilvægum augnablikum. Þeir sigldu þessum sigri einfaldlega bara í hús á seiglunni, voru sterkari á þeim augnablikum sem skipti máli. Ekki fleiri orð um það.

Hverjir stóðu upp úr?

Björn Kristjánsson átti góðan leik fyrir KR og dró þá áfram, en hann endaði stigahæstur KR-inga með 23 stig stig. DJ Balentine stóð upp úr hjá Þórsurum, en hann endaði með 27 stig. Hann var kominn með 15 stig strax í fyrsta leikkhluta. Fimm leikmenn KR voru með 16 eða meira í framlag, en einungis þrír hjá gestunum.

Tölfræðin sem vakti athygli

Liðin voru á eldi í fyrsta leikhlutanum fyrir utan þriggja stiga línuna. Gestirnir hittu úr fimm fyrstu þristum sínum og heimamenn fyrstu fjórum. Eftir fyrsta leikhlutann höfðu þrettán þriggja stiga körfur litið dagsins ljós. Lygileg tölfræði.

Hvað gerist næst?

Liðin eru nú á leið í jólafrí. KR á toppi deildarinnar með jafn mörg stig og Haukar og mögulega Tindastóll, en þegar þetta er skrifað er leik Stjörnunnar og Tindastóls ekki lokið. Þór er hins vegar í níunda sætinu með átta stig. Í fyrsta leik eftir jól fer KR til Njarðvíkur, en Þorlákshafnarmenn spila við Grindavík í Þorlákshöfn.

KR-Þór Þ. 96-83 (29-32, 24-19, 23-19, 20-13)

KR: Björn Kristjánsson 23/5 fráköst, Darri Hilmarsson 16/8 fráköst/5 stoðsendingar, Jalen Jenkins 15/8 fráköst, Pavel Ermolinskij 14/5 stoðsendingar, Kristófer Acox 13/7 fráköst, Brynjar Þór Björnsson 12/9 fráköst/5 stoðsendingar, Sigurður Á. Þorvaldsson 3/4 fráköst, Veigar Áki Hlynsson 0, Orri Hilmarsson 0, Ólafur Þorri Sigurjónsson 0, Andrés Ísak Hlynsson 0, Zaccery Alen Carter 0.

Þór Þ.: DJ Balentine II 27/5 fráköst/7 stoðsendingar, Halldór Garðar Hermannsson 16/5 stoðsendingar, Davíð Arnar Ágústsson 11, Ólafur Helgi Jónsson 11/11 fráköst, Emil Karel Einarsson 10/5 fráköst, Adam Eiður Ásgeirsson 5, Óli Ragnar Alexandersson 3/6 stoðsendingar, Benedikt Þorvaldur G. Hjarðar 0, Magnús Breki Þórðason 0, Benjamín Þorri Benjamínsson 0, Styrmir Snær Þrastarson 0, Ísak Júlíus Perdue 0.



Björn: Nánast lélegt

„Þetta var langt því frá okkar besti leikur. Við vorum of lengi í gang og þetta var nánast bara lélegt,” sagði Björn Kristjánsson, leikmaður KR, við Vísi í kvöld. Hann átti góðan leik í kvöld.

„Það komu nokkrar mínútur í seinni þar sem við vorum góðir. Við hefðum getað verið lengur undir en þangað til undir lok fyrri hálfleiks og vorum heppnir hversu lítill munurinn var.”

„Þeir voru að fara fá opin skot og við vorum ekket að tala í vörninni. Þetta var andlaust,” en afhverju var þetta andlaust hjá margföldum Íslandsmeisturum?

„Ég veit það ekki. Seinasti leikur fyrir frí eða eitthvað. Ég veit það ekki. Þetta er eitthvað sem Íslandsmeistararnir síðustu ára eiga ekki að gera.”

„Allir leikir eru leikir í þessari deild. Þetta var lélegt og þetta þurfum við að skoða. Það koma svona leikir inn á milli og það mikilvæga er að við tókum tvö stig.”

Fjórir deildarsigrar hjá KR í röð sem er jafnt ÍR, Tindastól og Haukum á toppi deildarinnar.

„Það er mikil stígandi og við þurfum að horfa framhjá þessu. Taka það jákvæða úr þessu. Við erum algjörlega á réttri leið.”

„Þetta er allt annað en þegar við töpuðum tveimur í röð; þá fórum við að skoða sjálfa okkur og það er að skila sér,” sagði þessi lunkni leikmaður að lokum.

Einar: Vorum að spila gegn besta liði landsins

„Alltaf vont að tapa, en mér fannst margt jákvætt í leiknum í dag. Fyrir mér var þetta spurning um að halda áfram að bæta sig sem mér finnst við hafa gert í síðustu þremur leikjum,” sagði Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs úr Þorlákshöfn, í samtali við Vísi í kvöld.

„Við vorum að spila gegn besta liði landsins og þú þarft að spila algjörlegan toppleik í DHL til þess að vinna og okkur hefur tekist það undanfarin ár, oftar en flestum ef ekki öllum síðustu tvö ár. Það var áræðni og þor.”

„Sóknarleikurinn heilt yfir var góður, en þeir fá myndarlegt framlag frá sex mönnum og Björn Kristjánsson var þeirra X-factor. Skaut vel og fékk óþægilega mörg góð færi.”

Þórsarar hittu afar vel í fyrri hálfleik og þá sérstaklega í fyrsta leikhluta þar sem þristunum rigndi. Einar segir að það hafi verið uppleggið að láta vaða.

„Við teljum okkur vera með marga góða skotmenn. Það var uppleggið að láta vaða. Ég tók séns í dag og spilaði á sex mönnum í fyrri hálfleik. Sjöundi maðurinn spilaði ekki mikið.

„Það var pínu erfitt þegar við komum inn í fjórða. Það var tæpt á tanknum. Við eigum þó inni sterka stráka í Þorsteini og Snorra sem koma inn í þetta vonandi fyrr en síðar til að þétta hópinn. Heilt yfir ánægður með sóknarleikinn að megninu til.”

Einar segir að gengi sinna manna horfi til betra vegar, en framan af tímabilinu gekk lítið hjá Þórsurum. Þeir unnu þó þrjá leiki í röð og Einar segir að hann fari ágætlega sáttur inn í jolafrí:

Já, klárlega. Við erum búnir að fara í gegnum allskonar núna í vetur. Þetta er ekkert auðveldasta haust sem við höfum farið í gegnum. Það er margt sem spilar inn í þar. Við unnum ágætlega úr því. Það var stórt test fyrir okkur að fara í gegnum Val, Hött og Þór.”

„Það var möst að vinna þá alla til að vera í seilingarfjarlægð og fara inn í janúar til að geta strítt þeim liðum sem við mætum þar. við þurfum að vinna eitthvað af þeim fjórum leikjum til þess að nálgast úrslitakeppni,” sagði Einar að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira