Umfjöllun og viðtöl: ÍR - Keflavík 96-92 | ÍR marði sigur í framlengingu

Böðvar Sigurbjörnsson í Hertz-Hellinum í Breiðholti skrifar
Ryan Taylor er búinn að vera frábær fyrir ÍR og var flottur í kvöld.
Ryan Taylor er búinn að vera frábær fyrir ÍR og var flottur í kvöld. Vísir/Ernir
Heimamenn í ÍR sigruðu Keflavík í framlengdum háspennuleik í 11. og síðustu umferð ársins 2017 í Domino´s deild karla. Sæþór Elmar Kristjánsson og Matthías Orri Sigurðarson áttu stórleik í liði heimamanna og skoruðu samanlagt 45 stig af 96 stigum liðins. Daði Lár Jónsson sýndi stáltaugar þegar hann knúði fram framlengingu fyrir Keflavík þegar venjulegur leiktími var liðinn en það dugði ekki til. ÍR-ingar fara glaðir í jólafrí á toppi deildarinnar.

Það var alveg ljóst fyrir leikinn að það væri mikið undir fyrir bæði lið. ÍR-ingar þurftu á sigri að halda til að halda í við topplið deildarinnar á meðan Keflvíkingar gátu jafnað ÍR að stigum með sigri.

Leikurinn bar þess merki í byrjun að mikið væri undir og gekk liðinum erfiðlega að skora til að byrja með. Keflvíkingar náðu þó undirtökunum eftir nokkra baráttu og leiddu eftir 1. leikhluta með 12 stigum.

14 stiga viðsnúningur i öðrum leikhluta.

Eitthvað hefur Borce Ilievski, þjálfari ÍR, sagt við sína menn í leikhléinu því þeir komu mikið grimmari inn í leikhlutann og náðu jafnt og þétt að saxa á forskot Keflvíkinga allt þar til þeir höfðu jafnað undir lok leikhlutans.

Ryan Taylor setti svo punktinn yfir i-ið og þegar hann troða boltanum með miklum látum í körfuna rétt áður en fyrri hálfleikurinn rann út, Ghetto Hooligans kunnu vel að meta þessi tilþrif kappans og létu vel í sér heyra. Staðan í hálfleik 41-39 fyrir heimamenn.

Kaflaskiptur þriðji leikhluti

Heimamenn héldu áfram að spila vel í byrjun seinni hálfleiks og náðu fljótlega 10 stiga forskoti, þar fóru fremstir í flokki Sæþór og Matthías Orri sem leiddu sóknarleik liðsins.

Leikhlé Friðriks Inga virðist hafa gert sitt gagn því Keflvíkingar fóru að spila betur og þegar 3. leikhluta lauk munaði einu stigi á liðunum, 60-59 fyrir heimamenn.

Háspenna/lífshætta í fjórða leikhluta

Óhætt er að segja að áhorfendur hafi fengið vel fyrir peninginn fjórða og síðasta leikhluta leiksins. Jafnræði var með liðunum í leikhlutanum en þó voru ÍR-ingar þó ávallt hálfu skrefi á undan.

Þegar tvær mínútur voru eftir af leiknum virtust heimamenn vera að klára leikinn þegar Sæþór sett þriggja stiga skot niður. Keflvíkingar neituðu þó að gefast upp og í síðustu sókn leiksins var brotið á Daða Lár Jónssyni í þriggja stiga skoti þegar aðeins tvær sekúndur voru eftir af leiknum. Daði fór á línuna, sýndi stáltaugar og setti öll þrjú skotin sín niður og sendi leikinn í framlengingu.

Ekki var spennan minni í framlengingunni og virtust bæði lið á köflum vera líkleg til að taka yfir og sigra leikinn. Að lokum voru það þó heimamenn í ÍR sem reyndust sterkari og fóru með sigur af hólmi. Vert er að minnast á framlag Sæþórs Kristjánssonar sem 7 af 9 þriggja stiga skotum sínum í leiknum, mörg hver á mjög mikilvægum augnablikum.

ÍR-Keflavík 96-92 (14-26, 27-13, 19-20, 22-23, 14-10)

ÍR: Matthías Orri Sigurðarson 23/5 fráköst/6 stoðsendingar, Sæþór Elmar Kristjánsson 21/8 fráköst, Ryan Taylor 20/13 fráköst/6 stoðsendingar, Danero Thomas 17/4 fráköst/5 stoðsendingar, Kristinn Marinósson 8/5 fráköst, Sveinbjörn Claessen 5, Trausti Eiríksson 2, Ísak Máni Wíum 0, Einar Gísli Gíslason 0, Daði Berg Grétarsson 0, Sigurkarl Róbert Jóhannesson 0, Hákon Örn Hjálmarsson 0.

Keflavík: Stanley Earl Robinson 23/14 fráköst, Guðmundur Jónsson 15/4 fráköst, Ragnar Örn Bragason 12, Reggie Dupree 12, Daði Lár Jónsson 8/5 stoðsendingar, Hilmar Pétursson 8/4 fráköst, Magnús Már Traustason 7, Þröstur Leó Jóhannsson 5, Ágúst Orrason 2, Andrés Kristleifsson 0, Arnór Sveinsson 0, Davíð Páll Hermannsson 0.

Borce: Sæþór var maður leiksins

Borce IIiveski, þjálfari ÍR, var að vonum sáttur með sigurinn.

„við vissum það þetta yrði hörkuleikur, það er alltaf erfitt að spila á móti Keflavík. Þeir spila hraðan bolta og vilja hlaupa og skjóta. Þeir komu okkur á köflum á óvart með því hvaða vörn þeir beittu en við fundum svör við því, ég er ánægður með það,“ sagði Borce.

„Í kvöld spilaði allt liðið vel og allir gáfu sig 100 prósent í þetta en ég verð að minnast á framlag Sæþórs, hann var maður kvöldsins og sýndi virkilega hvaða gæðum hann býr yfir sem leikmaður. Manni líður vel sem þjálfari þegar maður sér svona frammistöðu, annars var þetta sigur alls liðsins og það er ég ánægður með.

Friðrik Ingi: Getur dottið báðum megin

„Mér fannst við alveg eins eiga þetta skilið og þeir, í svona leikjum getur þetta dottið báðum megin en því miður féll það ekki með okkur núna, ég óska ÍR til hamingju en um leið er ég stoltur af baráttunni í liðinu mínu. Mér fannst við hafa unnið fyrir þessu í kvöld en því miður dugði það ekki til sigurs,“ segir Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Keflavíkur.

Aðspurður um það hvernig honum hafi fundist leikurinn þróast sagði Friðrik.

„Heilt yfir er ég nokkuð sáttur með þetta, við börðumst vel og neituðum að gefast upp. Við hefðum auðvitað getað gert betur í því að klára málin þegar við voru komnir í stjórnunarstöðu í leiknum, en við lærum af því og munum bæta okkur.

„við höfum verið upp og niður upp á síðkastið, höfum átt góða kafla en líka dottið niður á milli, kannski óþarflega mikið á köflum.“

Friðrik sagði Keflavík ávallt vilja vera í toppbarátunni og það sé alltaf markmiðið.

„Við munum nota jólafríið til að fara yfir hlutina og setjum stefnuna á að blanda okkur í toppbaráttuna á seinni hluta tímabilsins.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira