Innlent

Forseti Íslands um MeToo-byltinguna: „Hingað og ekki lengra“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Guðni Th. Jóhannesson er forseti Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson er forseti Íslands. Vísir/Anton
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, gerði MeToo-byltinguna að viðfangsefni sínu í ávarpi sínu er Alþingi var sett fyrr í dag. Hann segir skilaboð kvenna um víðan heim skýr. Kynferðislegt ofbeldi og áreitni verði ekki lengur liðin.

„Nú á dögum standa vonir til að við séum á tímamótum. Hingað og ekki lengra heyrist um heim allan,“ sagði Guðni Th. og vísaði þar til frásagna kvenna sem stigið hafa fram og sagt frá kynferðislegu ofbeldi og áreitni, þar á meðal hér á landi. Stjórnmálakonur, fjölmiðlakonur, tónlistarkonur og konur í fleiri stéttum hafa stigið fram og greint frá ofbeldi og áreitni undir merkjum MeToo.

„Boðskaðurinn er einfaldur og skýr, hingað og ekki lengra. Yfirgangur verður ekki lengur liðinn, við verðum að hlusta og gera betur, við sem búum saman í þessu samfélagi,“ sagði Guðni.

Sendi hann öllum þeim sem telja frásagnir kvennanna léttvægar og skipta litlu máli skýr skilaboð með hjálp Elísabetar Jökulsdóttur skáldkonu en vitnaði hann í ljóð hennar.

„Það eru allskonar venjulegir menn jafnvel vinir mínir að kvarta undan þessari metoo bylgju sem er í gangi,

þeir segja „ekkert má maður“ og „hvað má eiginlega“ og ekkert má

maður lengur.

Við þá vil ég segja, það má ekkert, maður biður

um leyfi fyrir öllu;

Má ég sýna þér hvað ég var að skrifa.

má ég fá tannkremið, má ég fá mjólkina,

má ég knúsa þig, má ég fá lánaða húfuna þína..“

Sagði Guðni að augljóst væri að nei þýddi nei og það bæri að virða. Þetta hlytu allir að gera verið sammála um, þvert á flokka.

„Málstaðurinn er það sterkur, þörfin það brýn. Þrátt fyrir allt okkar ósætti, allar okkar ólíku hugsjónir skulum við standa saman um grundvöll okkar samfélags. Réttarríki og mannréttindi, víðsýni, umburðarlyndi og einstaklingsfrelsi, samkennd og samúð, jafnrétti, velferð og vernd allra gegn hvers kyns ofríki og aðkasti.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×