Innlent

Vill að allir geti lifað með reisn

Samúel Karl Ólason skrifar
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. Vísir/Hanna
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sagði í jómfrúarræðu sinni á Alþingi í kvöld að skammarlegt væri að á hinu ríka Íslandi, væri fólk sem þyrfti að búa við fátækt. Hún sagði að í hinum nýja stjórnarsáttmála væri margt gott en hins vegar væri allt of fátt þar sem væri „hönd á festandi“.

Hún sagðist ekki ætla að vera neikvæð í ræðu sinni.

Enn fremur sagði hún að þó talað væri um jöfnuð og jöfn tækifæri fyrir alla væri ljóst að það væri þó einungis verið að tala um jöfn tækifæri fyrir suma.

Inga nefndi að Alþingi hefði fengið góða heimsókn í dag þar sem fulltrúar öryrkja komu og sýndu þingmönnum spilið Skerðing.

„Þetta er spilið í ár. Jólaspilið sem öryrkjar spila. Spilið sem enginn óskar sér að fá. Vegna þess að í þessu spili eru engir peningar,“ sagði Inga.

Hún sagðist vilja leggja áherslu á að í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar, sem væri ágætt fyrir suma, væri ljóst að lítið sem ekkert ætti að gera í kjarabótum fyrir öryrkja. Hún sjálf væri öryrki en nú væri hún öryrki á ofurlaunum, í boði Íslendinga sem hefðu kosið Flokk fólksins.

Inga sagði að Flokkur fólksins ætlaði að berjast fyrir því sem þau hefðu verið kjörin til að berjast fyrir. Markmið þeirra væri að útrýma fátækt. Að allir gætu lifað með reisn í fallega landinu okkar.

Þá fagnaði Inga því að verulega væri verið að auka fjárveitingar í heilbrigðisþjónustu og innviði. Hins vegar sagði hún forgangsröðunina ekki vera rétta að sínu mati. Hún vildi byrja á börnunum og fátækum. Inga nefndi einnig að orðið fátækt væri einungis á einum stað í stjórnarsáttmálanum. Það væri á blaðsíðu 29 af 38 og kæmi orðið fyrir í lið um jöfn tækifæri.

Að endingu sagði Inga að bjartsýni væri nauðsynlegt og hún vildi hafa Íslendinga brosandi. Réttast væri að gefa ríkisstjórninni tækifæri til að standa við stóru orðin.


Tengdar fréttir

Söguskoðun Sigmundar merkileg

Fjármálaráðherra segir að í nýja ríkisstjórnarsamstarfinu hafi verið lögð áhersla á verkefni sem flokkarnir þrír gætu sameinast um.

„Þetta er kerfisstjórn“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir ríkisstjórnina ætla að "pikkfesta“ samfélagið í viðjum kerfishugsunar frá síðustu öld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×