Erlent

„Þjóðarharmleikur“ Ástrala afhjúpaður

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vegfarendur í höfuðborginni Canberra þökkuðu rannsóknarnefndinni fyrir störf sín.
Vegfarendur í höfuðborginni Canberra þökkuðu rannsóknarnefndinni fyrir störf sín. Vísir/Epa
Niðurstöður ítarlegrar rannsóknar á kynferðisbrotum í Ástralíu gefa til kynna að stofnanir landsins hafi „stórkostlega brugðist“ börnum.

Starf rannsóknarnefndarinnar að baki skýrslunni stóð yfir í fimm ár og ræddi hún við rúmlega 8000 þolendur.

Ásakanirnar í vitnisburði þeirra lutu að trúar- og menntastofnunum ekki síður en íþróttafélögum og benda þær til að ofbeldið hafi fengið að líðast svo áratugum skiptir. Alls áttu brotin sér stað inn 4000 þúsund stofnana, fyrirtækja eða félaga.

Flestar ásakanirnar beindust að trúarleiðtogum og kennurum sem einna helst störfuðu innan kaþólskra stofnana.

Ekki bara svartir sauðir

Meðal 400 umbótatillagna sem rannsóknarnefndin setur fram í skýrslunni er að kaþólska kirkjan í Ástralíu endurskoði reglur sínar um skírlífi. Þó það leiddi kannski ekki „beint til barnaníðs“ þá virðist það hafa „átt sinn þátt, ekki síst í bland við aðra áhættuþætti.“

„Tugþúsundir barna hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni innan stofnana Ástralíu. Við munum aldrei vita nákvæmlega hver talan er,“ skrifar breska ríkisútvarpið upp úr skýrslunni. „Þetta er ekki spurning um nokkra svarta sauði. Stærstu stofnanir samfélagsins hafa stórkostlega brugðist.“

Í skýrslunni, sem gerð var opinber í dag, má sjá 189 nýjar umbótatillögur en áður hafð nefndin gert 220 þeirra opinberar. Tillögurnar munu nú fara fyrir ástralska þingið.

Forsætisráðherra Ástralíu, Malcolm Turnbull, segir að með tilkomu skýrslunnar hafi „þjóðarharmleikur“ verið afhjúpaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×