Enski boltinn

Winks: Tottenham getur enn unnið deildina

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Winks er 21 árs Englendingur sem er uppalinn hjá Tottenham
Winks er 21 árs Englendingur sem er uppalinn hjá Tottenham vísir/getty
Harry Winks, leikmaður Tottenham, segir að liðið eigi enn að stefna á Englandsmeistaratitilinn.

Manchester City vann sinn 15. deildarsigur í röð í vikunni, sem er nýtt met í úrvalsdeildinni, og eru með 11 stiga forystu á Manchester United og heilum 18 stigum á undan Tottenham sem situr í fjórða sætinu.

Mauricio Pochettino, þjálfari Tottenham, sagði að liðið geti ekki lengur keppt um titilinn, en Winks vill halda trúnni.

Tottenham fer á Etihad völlinn í Manchester á morgun og mætir toppliðinu.

„Það er enginn tilgangur að fara inn í leik og ekki stefna að því að vinna,“ sagði Winks. „Við erum jákvætt lið, erum eitt af toppliðunum í deildinni og við verðum að fara þangað og sanna það.“

„Við viljum að City fari að tapa stigum því við viljum vinna deildina. Það er pirrandi að sjá muninn á liðunum, en það er enn mikið að keppast um. Furðulegri hlutir hafa gerst í úrvalsdeildinni og þú getur aldrei sagt aldrei,“ sagði Harry Winks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×