Innlent

Böndum komið á drónaflug

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Drónar geta ógnað flugöryggi.
Drónar geta ógnað flugöryggi. vísir/getty
Í dag öðlast reglugerð um fjarstýrð loftför, svokallaða dróna, gildi hér á landi. Er þetta í fyrsta skipti sem sérstaklega er fjallað um notkun dróna í reglugerð.

Að því er fram kemur í tilkynningu frá Samgönustofu er markmiðið að tryggja flugöryggi og öryggi og réttindi. Með reglugerðinni er notkun dróna skipt í tvo flokka. Annars vegar tómstundaflug þar sem ekki þarf að leita sérstaks leyfis hjá Samgöngustofu. Hins vegar er það otkun dróna í atvinnuskyni, þar með talið rannsókna, sem þarf að skrá hjá þjónustuveri Samgöngustofu.

Í reglugerðinni kemur meðal annars fram að óheimilt sé að fljúga dróna hærra en í 120 metra hæð án sérstaks leyfis frá Samgöngustofu. Þá ber þeim sem fljúga dróna að tryggja að notkun dróna valdi ekki óþarfa ónæði, skaði fólk eða dýr né valdi tjóni á eignum.

Samgöngustofa hefur gefið út veggspjöld þar sem fram koma helstu upplýsingar og reglur sem gilda um drónaflug en veggspjöldin má sjá hér fyrir neðan.

Drónar hafa verið að ryðja sér til rúms á undanförnum árum og verður notkun þeirra æ tíðari. Er notkun dróna margvísleg en sem dæmi nota björgunarsveitir dróna við leit að fólki.

Upp hafa komið nokkur alvarleg atvik þar sem dróna hefur verið flogið nálægt þyrlum á flugi. Alvarlegasta atvikið átti sér stað í janúar þegar dróna var flogið nærri þyrlu sem var í aðflugi að Reykjavíkurflugvelli.

Reglur um notkun dróna í atvinnuskyni.Mynd/Samgöngustofa
Reglur um notkun dróna í tómstundum.Mynd/Samgöngustofa

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×