Innlent

Strætó hefur næturakstur í janúar

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Handhafar strætókorta munu geta notað kortin í næturvagnana án frekari kostnaðar.
Handhafar strætókorta munu geta notað kortin í næturvagnana án frekari kostnaðar. Vísir/Ernir
Strætó hefur akstur sérstakra næturvagna úr miðbænum aðfaranótt laugardags 13. janúar. Gjaldskráin verður einnig hækkuð og hefur verið boðað til þjónustuaukningar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Strætó.

Gjaldskráin mun koma til með að hækka um 4,9 prósent að meðaltali. Almennt staðgreiðslugjald og stakt fargjald í appinu verður 460 kr. eftir breytingu. Á sama tíma verður farið í umfangsmiklar leiðakerfisbreytingar sem hafa í för með sér töluverða þjónustuaukningu.



Hefja næturakstur í janúar og auka þjónustu

Næturakstur Strætó hefst, sem fyrr segir, aðfaranótt laugardags 13. janúar. Stakt fargjald með næturvögnum verður 920 krónur eða tveir strætómiðar. Handhafar strætókorta munu hins vegar geta notað kortin í næturvagnana án frekari kostnaðar segir í tilkynningunni.

Þjónustuaukningin sem um ræðir hefst 7. janúar 2018.

Helstu breytingar eru eftirfarandi:

Leið 6 verður stytt og sett á 10 mínútna tíðni á annatímum. Sama fyrirkomulag hefur verið á leið 1 í rúmt ár og hefur það reynst mjög vel.

Þjónustutími verður lengdur á leiðum 1, 2, 3, 4, 5, 6, 11, 12, 15 og 18  til klukkan 01:00 á kvöldin.

Sex leiðir munu sinna næturakstri úr miðbæ Reykjavíkur á aðfaranóttum laugar- og sunnudaga. Leiðirnar munu aka á ca. klukkutíma fresti frá klukkan 01:00 til ca. 04:30.

Sumarið 2018 verður engin sérstök þjónustuskerðing yfir sumartímann eins og tíðkast hefur síðastliðin ár.

Ný gjaldskrá tekur gildi 3. janúar 2018




Fleiri fréttir

Sjá meira


×