Lífið

Bragðgóðar og ilmandi jólakökur

Eggert Jónsson, konditor og bakarameistari, með gómsætu jólakökuna.
Eggert Jónsson, konditor og bakarameistari, með gómsætu jólakökuna. MYNDIR/STEFÁN
Eggert Jónsson, konditor og bakarameistari, tók þátt í laufabrauðsgerð fyrir jólin með móður sinni sem ungur strákur í Keflavík en skipti yfir í piparkökuhúsin með syni sínum þegar hann komst á fullorðinsaldur. Í dag bakar hann hins vegar allt mögulegt fyrir jólin þegar hann er í stuði, t.d. súrdeigsbrauð. „Svo er alltaf gaman að taka klassískar uppskriftir og poppa þær aðeins upp, t.d. piparkökur, sörur og marengstoppa.“

Jólin í ár verða nokkuð hefðbundin hjá Eggerti og fjölskyldu hans þar sem hann mun m.a. bjóða upp á humar, nautalund og crème brûlée í eftirrétt. Auk þess mun hann bjóða upp á heimalagaðan ís um miðnætti. „Á jóladag eru jólaboð í Keflavík. Seinna um kvöldið er hefð fyrir því að fara til æskuvinar míns Guðna Hafsteinssonar þar sem við horfum á NBA körfuboltaleik í beinni útsendingu og spilum svo pílukast fram á nótt.“

Hér gefur Eggert lesendum Fréttablaðsins tvær ljúffengar jólauppskriftir.

 

 

Einstaklega falleg og bragðgóð jólakaka.
Jólaterta

3 botnar:

180 g eggjahvítur

80 g sykur

100 g möndlumjöl

60 g kókosmjöl

125 g flórsykur

30 g hveiti

Þeytið eggjahvítur, bætið sykrinum við og þeytið vel. Blandið restinni varlega saman við með sleif. Smyrjið á plötu og bakið við 180 gráður í 12 mínútur eða þar til botnarnir eru ljósbrúnir.

Skyr-kókosmús

Svissneskur marengs:



135 g eggjahvítur

200 g sykur

Setjið blönduna í vatnsbað og hitið í u.þ.b. 55 gráður. Þeytið í hrærivél og setjið í skál.



300 g kókospúrra

9 g matarlímsblöð (5 blöð), hvert blað er 1,7 g

90 g svissneskur marengs

150 g rjómi

100 g skyr



Setjið matarlímsblöðin í kalt vatn og léttþeytið rjómann. Hitið kókospúrruna í potti og bræðið matarlímsblöðin í púrrunni. Blandið varlega 90 g af marengsinum út í kókospúrruna ásamt skyrinu og rjómanum. Setjið kókosbotn í sílikonform og hellið kókosmúsinni yfir þangað til formið er hálft. Frystið.

Skyr-passionmús

10 g matarlímsblöð (6 blöð), hvert blað er 1,7 g

300 g passion-púrra

225 g svissneskur marengs

200 g rjómi

100 g skyr



Sama aðferð og við kókosmúsina. Hellið í lítil sílikonform og frystið.



Súkkulaðimús

180 g mjólk

360 g rjómi

240 g mjólkursúkkulaði

3,5 g matarlímsblöð (2 blöð)

Matarlímsblöðin sett í kalt vatn. Þeytið rjómann. Hitið mjólk að suðu og hellið yfir súkkulaðið og blandið saman. Bætið matarlímsblöðunum við þegar blandan er komin niður í 35 gráðu hita en þá má blanda rjómanum saman við.

Jólakakan er þannig sett saman: Hellið súkkulaðimús yfir einn kókosbotninn sem er í sílikonformi þannig að hálft formið fyllist. Setjið frosnu kókosmúsina ofan í og fyllið formið með súkkulaðimúsinni. Takið úr forminu og skreytið að vild. Setjið litlu skyr-passionmúsina ofan á kökuna.

Kakósprey á kökuna

300 g dökkt súkkulaði 55%

200 g kakósmjör

Blandið í skál og setjið í örbylgjuofn. Brætt saman á 45-50 gráðum. Setjið í rafmagnsspreybyssu og sprautað á frosna kökuna. Þegar heit súkkulaðiblandan fer á frosna kökuna myndast hraun áferð en hægt er að nota sömu aðferð við mjólkur­súkkulaði og hvítt súkkulaði. Einnig er hægt að gera þessa uppskrift með desert glösum og lagskipta réttinum.



Ilmandi góð Pekan baka passar vel á aðventunni.
Pekan baka fyrir jólin

Pekan bakan á sérstaklega við á aðventunni. Hana er hægt að bera fram með með þeyttum rjóma, ís eða staka með heitum kaffibolla eða heitu súkkulaði. Hentar vel í bæði kaffitímanum eða sem eftirréttur eftir góða máltíð. Eggert gefur hér einfalda uppskrift af tveimur bökum því alltaf er gott að eiga böku í fyrstinum þegar góða gesti ber að garði.

Tvær Pekan bökur

Tveir botnar, um 18 cm:

375 gr hveiti

110 gr flórsykur

250 gr smjör (kalt)

50 gr eggjarauður (2 stk)

Hnoðað í hrærivél og kælið deigið. Rúllið deiginu yfir formin tvö og kælið á meðan þið gerið fyllinguna.

Fylling:

130 gr eggjarauður

145 gr síróp

90 gr púðursykur

80 gr smjör (brætt)

50 gr rjómi



200 gr pekanhnetur

Allt hráefni, utan pekanhnetanna, þeytt í hrærivél í nokkrar mínútur. Setjið 170 gr af fyllingunni á hvorn botn og stráið 100 gr af pekanhnetum yfir hvora böku. Bakið við 170 gráðu hita í 30 mínútur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×