Lífið

Kætist yfir góðum mat

,,Vinir okkar hjóna voru alltaf að biðja um þessa eða hina uppskriftina svo við gáfum bara út matreiðslubók eitt árið,“ segir Sigurður Árni Þórðarson, sóknarprestur í Hallgrímskirkju.
,,Vinir okkar hjóna voru alltaf að biðja um þessa eða hina uppskriftina svo við gáfum bara út matreiðslubók eitt árið,“ segir Sigurður Árni Þórðarson, sóknarprestur í Hallgrímskirkju. MYND/VILHELM
Matreiðsluáhuga Sigurðar Árna Þórðarsonar, sóknarprests í Hallgrímskirkju, má rekja til æskuáranna þegar hann gerði sér grein fyrir því að elda mætti silung með mismunandi hætti og að krydd væri undraefni. „Foreldrar mínir ræktuðu fjölbreytilegt grænmeti. Svo var ég á unglingsárum stórveiðimaður norður í Svarfaðardal og tíndi marga tugi lítra af berjum á haustin. Það er platveiðimaður sem ekki lærir að gera að fiski og elda.“

Á vef sínum, sigurdurarni.is birtir Sigurður m.a. greinar, pistla og hugvekjur en líka ýmsar ljúffengar uppskriftir. „Vinir okkar hjóna voru alltaf að biðja um þessa eða hina uppskriftina svo við gáfum bara út matreiðslubók eitt árið og gáfum vinum og fjölskyldumeðlimum í jólagjöf. Þar sem óskirnar héldu áfram og ég var með heimasíðu var auðvelt að smella inn uppskriftum sem eru þarna í bland við hugleiðingar um lífið, prédikanir, þjóðmál og annað sem prestur skrifar um.“

Mikilvægt að borða saman

Eiginkona Sigurðar, Elín Sigrún Jónsdóttir, er að hans sögn betri bakari en hann og líka næmari á uppskriftir. „Hún veit að ég er mikill matfaðir og vil helst elda og hafa marga í kringum mig og gefa mörgum að borða. Því sendir hún mér uppskrift um miðjan dag eða kaupir hráefni og tilkynnir mér að hún hafi fundið þessa góðu uppskrift. Ég verð kátur þegar maturinn er góður, allir borða og standa upp frá borðum með hrós á vörum.“

Starf sóknarprests getur verið mjög annasamt og vinnudagar langir. Góður matur í góðum félagsskap skiptir því Sigurð miklu máli. „Í kirkjunni stöndum við prestarnir við borð, altarið. Og í safnaðarheimilum kirkna eru borð og samfélag. Jesús Kristur var veislukarl. Hann er minn maður. Kirkja er í þágu lífsins. Að borða saman er mikilvægt, samtölin eru mikilvæg og við snertum hvert annað tilfinningalega þegar við eigum samfélag. Það vissi Jesús Kristur og ég tek mark á því, líka heima.“

Áhugi á Biblíumat

Miðjarðarhafsmaturinn, bæði hráefnin og kryddin, eru uppáhald Sigurðar. „Biblíumatur er sértækt áhugaefni og mig langar til að dýpka þekkingu mína á klassísku hráefni fornaldar því það er heilsufæði nútímans. Ég verð í Berkeley í Kaliforníu næstu mánuði og mun örugglega fara á heilsumarkaðina á San Francisco-svæðinu.“

Uppskriftin sem Sigurður gefur lesendum er Maríukjúklingur sem hann segir vera Biblíumat. „Mig grunar að María, móðir Jesú, hafi verið hrifin af svona mat. Hún hefði getað eldað réttinn því hráefnin voru til í þessum heimshluta á uppvaxtarárum Jesú Krists. Og Biblíumatur er alltaf hollur og rímar við heilsufæði nútímans.“

Maríukjúklingurinn bragðaðist vel í félagsskap góðra gesta.
Maríukjúklingur

Fyrir fjóra

4 kjúklingabringur



4-6 hvítlauksgeirar

1 tsk. kúmmín

1,5 tsk. túrmerik

1 tsk. kanill, malaður

Salvía, helst fersk, annars þurrkuð

1 stór rauðlaukur

3 skalottlaukar 

Sítrónubörkur, rifin með rifjárni

Safi úr einni sítrónu (helst lífrænni) ca 70 ml, má líka vera appelsínubland

150 g spínat

300 ml grænmetiskraftur

10 döðlur, langskornar, mega líka vera fíkjur eða sveskjur í staðinn.

Maldonsalt

Heslihnetur til skreytingar



Aðferð:

Setjið Maldonsalt og olíu á heita pönnu. Kjúklingurinn fer á pönnuna og meira Maldonsalt sett yfir kjúklinginn ásamt salvíunni. Rauðlaukur, skalottlaukur og hvítlaukur skorinn fínt og steiktur við hlið kjúklingabitanna. Bætið grænmetiskraftinum út í og kryddið með kúmmín, túrmerik og kanil og sítrónuberki. Best er þó að leyfa hráum kjúklingnum að standa í kæli í sólarhring ásamt kraftinum og kryddinu áður en hann er eldaður.

Bætið næst sítrónusafa, spínati og hnetum yfir. Bætið döðlunum út í. Færið næst yfir í ofn við 180 gráður eða í pott og látið malla í fjörutíu mínútur. Gæta að því að vökvinn gufi ekki allur upp, bætið við vatni ef sósan er að verða of þykk. Borið fram með soðnu bulgur, byggi eða kúskús. Einnig er fallegt að setja eitthvað liríkt við hlið matarins, t.d niðurskorna ávexti á borð við appelsínur eða mandarínur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×