Enski boltinn

Dagurinn klárast með stórleik á Etihad │ Myndband

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Átjánda umferð ensku úrvalsdeildarinnar er spiluð nú um helgina og fara sjö leikir fram í dag.

Hádegisleikurinn er viðureign Leicester og Crystal Palace. Lærisveinar Roy Hodgson komust loksins af botninum í vikunni, en eru þó enn í fallsæti á markatölu. Leicester er hins vegar í áttunda sæti og getur blandað sér rækilega í baráttuna um toppsætin með sigri, en pakkinn er þéttur frá 2. - 7. sæti.

Fimm leikir fara af stað klukkan þrjú. Arsene Wenger fær Rafael Benitez í heimsókn þegar Arsenal og Newcastle mætast. Fótboltinn virðist í aukahlutverki í Newcastle þessa dagana, en mest er umræðan í kringum sölu Mike Ashley á félaginu. Arsenal er dottið niður í sjöunda sæti deildarinnar, átta stigum frá Manchester United í öðru sætinu.

Nýliðar Brighton fá Jóhann Berg Guðmundsson og félaga í Burnley í heimsókn á suðurströndina. Tímabilið hefur verið vonum framar hjá Burnley, sem er í sjötta sætinu og getur, í það minnsta tímabundið, farið upp í það fjórða með sigri.

Englandsmeistarar Chelsea fá Southampton í heimsókn. Chelsea fór auðveldlega með sigur á Huddersfield í síðustu umferð og eru í þriðja sæti. Þeir verða þar áfram, sama hvernig fer, en geta jafnað Manchester United að stigum. Nema liðið nái meira en níu marka sigri, þá fara meistararnir upp í annað sætið.

Stoke og West Ham mætast á bet365 vellinum í Stoke og Watford fær Huddersfield í heimsókn. Öll eru liðin í baráttunni í neðri hluta deildarinnar, að undanskildum vespunum í Watford sem sitja í níunda sæti.

Síðasti leikur dagsins er svo stórleikur Manchester City og Tottenham á Etihand. Eins og hvert mannsbarn sem fylgist með enska boltanum veit þá er City með algjöra yfirburð í deildinni og trónir örugglega á toppnum. Tottenham er í fjórða sætinu, jafnt að stigum og Liverpool og Burnley fyrir neðan þá.

Dagskrá dagsins:

12:30 Leicester - Crystal Palace, beint á Stöð 2 Sport

15:00 Arsenal - Newcastle

15:00 Brighton - Burnley

15:00 Chelsea - Southampton

15:00 Stoke - West Ham

15:00 Watford - Huddersfield

17:30 Manchester City - Tottenham, beint á Stöð 2 Sport




Fleiri fréttir

Sjá meira


×