Manchester City tók Tottenham í kennslustund

Kristinn Páll Teitsson skrifar
City-menn fagna marki Gundogan í dag.
City-menn fagna marki Gundogan í dag. vísir/getty
Manchester City vann 16. leik sinn í röð í ensku úrvalsdeildinni örugglega 4-1 á heimavelli í dag gegn Tottenham en með því náði City 14 stiga forskoti á toppi deildarinnar.

City byrjaði leikinn af miklum krafti og komst verðskuldað yfir með marki Ilkay Gundogan er hann skallaði í netið af stuttu færi eftir hornspyrnu. Enginn nálægt honum og eftirleikurinn auðveldur.

City sótti stíft í fyrri hálfleik og gátu heimamenn bætt við mörkum en staðan var aðeins 1-0 í hálfleik, City í vil.

Tottenham sótti í sig veðrið eftir því sem leið á leikinn en gestirnir voru stálheppnir að missa ekki Dele Alli af velli á 68. mínútu eftir ljóta tæklingu á Kevin De Bruyne.

De Bruyne svaraði því með því að bæta við marki rúmlega mínútu seinna með snyrtilegu skoti og sótti vítaspyrnu stuttu síðar.

Gabriel Jesus brenndi af vítaspyrnunni en það kom ekki að sök, stuttu síðar gerði Raheem Sterling út um leikinn með þriðja marki heimamanna.

Hann bætti svo við öðru marki sínu og fjórða marki City undir lok leiksins þegar kæruleysisleg mistök Eric Dier hleyptu honum einum í gegn.

Christian Eriksen minnkaði muninn fyrir Tottenham á 93. mínútu en það var allt of seint þar sem sigurinn var löngu kominn í höfn.

Manchester United getur náð að saxa á fjórtán stiga forskot City þegar þeir mæta West Brom á morgun en Tottenham féll niður í 6. sæti deildarinnar með tapinu í dag.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira