Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - Grótta 33-25 | Eyjamenn upp í annað sætið

Einar Kristinn Helgason skrifar
Eyjamenn tapa ekki leik þessa dagana.
Eyjamenn tapa ekki leik þessa dagana. vísir/ernir
Aron Rafn Eðvarðsson átti frábæran leik í átta marka sigri ÍBV gegn Gróttu í Vestmannaeyjum í dag 33-25  en með sigrinum eru Eyjamenn komnir upp fyrir Val í annað sæti Olís-deildarinnar.

Ljóst var fyrir leik að þetta yrði erfiður róður fyrir lið Gróttu sem heimsótti ÍBV til Vestmannaeyja.

Jafnræði var með liðunum fyrstu 20.mínútur leiksins en eftir það tóku Eyjamenn á sprett og keyrðu yfir gestina og voru 8 mörk sem aðskildu liðin í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn var eilítið jafnari en heimamenn gátu leyft sér að nota bekkinn og dreifa mínútum á leikmenn. Svo fór að leikurinn endaði með 8 marka sigri ÍBV, 33-25.

Af hverju vann ÍBV?

Eftir jafnræði framan af leik stungu Eyjamenn af undir lok fyrri hálfleiks. Þá var nokkuð ljóst að afar erfitt yrði fyrir gestina að koma til baka í þessum leik.

Aron Rafn Eðvarðson átti virkilega góðan leik í marki ÍBV og varði 17 bolta. Theodór Sigurbjörnsson og Sigurbergur Sveinsson gerðu sitthvor 8 mörkin.



Hverjir stóðu uppúr?


Aron Rafn Eðvarðson átti stórfínan leik í dag. Aron hefur verið gagnrýndur það sem af er móti en hefur heldur betur verið að minna á sig í undanförnum leikjum.  Theodór og Sigurbergur fóru mikinn í sóknarleik ÍBV og settu sitthvor 8 mörkin.

Í liði Gróttu átti Hreiðar Levý Guðmundsson góðan leik og varði 16 bolta. Júlíus Þórir Stefánsson var svo atkvæðamestur þeirra Gróttumanna með 9 mörk.

Hvað gekk illa?


Upp kom langur kafli í leiknum þar sem Gróttu gekk afar illa að skapa sér góð marktækifæri þar sem vörn ÍBV vann virkilega vel. Mörg góð færi gestanna sem fóru forgörðum og menn að skjóta úr afar erfiðum færum.

Hvað gerist næst?

Gróttumenn eru komnir í frí yfir hátíðarnar en ÍBV eiga eftir að fara í Garðabæinn þann 21. desember þar sem þeir etja kappi við Stjörnumenn. Með sigri geta Eyjamenn komið sér upp í 2.sæti deildarinnar.

Kári: Nýtum fríið vel og komum sterkari til baka„Það er alltaf svekkjandi að tapa en við svo sem töpuðum þessum leik tiltölulega sannfærandi,“ sagði Kári Garðarsson, þjálfari Gróttu eftir 8 marka tap gegn Eyjamönnum.

„Það var kominn 8 marka munur í hálfleik og þá er erfitt að snúa til baka á móti góði liði eins og ÍBV. Við erum 12-10 undir þegar 10.mínútur eru eftir af fyrri hálfleik og ég var að vona að við myndum skila okkur inn í hálfleik í einhverri þannig stöðu en þá kemur held ég 6-0 kafli hjá ÍBV úr 12-10 í 18-10 og á þeim kafla förum við svolítið langt með að fara með leikinn. Við vorum bara að spila undir pari í dag.“

Gróttumenn voru öflugri í síðari hálfleiknum en þeim fyrri.

„Við komumst lifandi frá seinni hálfleiknum og hann fer jafntefli en það má ekki gleyma því að við vorum að spila á móti algjörlega frábæru liði. Mjög vel mönnuðu og örugglega einu albest mannaða liði deildarinnar þannig að þú þarft að eiga ansi góðan leik og ekki síðst hérna á heimavelli ÍBV til þess að geta ætlast til að ná í stig.“

Kári og félagar eru núna komnir í smá frí. Spurður hvernig honum hafi litist á fyrri helming mótsins svaraði hann: „Hvað hefurðu langan tíma í það?“

„Þetta var þungt til að byrja með. Við fáum ekki stig fyrr en í 8.- eða 9.-umferð og svo koma 7 af 12 stigum sem við gátum sótt okkur þannig að það hefur verið ágætis gangur að undanförnu en við þurfum að, eins og allir þjálfarar segja á þessum tímapunkti, að nýta fríið vel og koma sterkari til baka.“

Arnar: Fannst við slaka full mikið áArnar Pétursson, þjálfari ÍBV, var að vonum sáttur með sannfærandi sigur gegn Gróttu í dag.

„Ég er sáttur með margt í okkar leik í dag.Við vorum lengi vel að spila mjög vel, örugglega í 40-45 mínútur í leiknum.“

ÍBV komst rúmlega 10 marka forustu en í síðari hálfleik var örlítið rólegra yfir þeim en síðari hálfleikurinn var töluvert jafnari.

„Það er eitthvað sem ég er ekki sáttur við. Eins og ég sagði áðan vorum við mjög flottir góðan tíma í þessum leik en svo fannst mér við slaka fullmikið á. Ég vill sjá okkur klára þetta betur,“ sagði Arnar sem sagðist þó taka margt jákvætt úr þessum leik:

„Við vorum að fá góðan varnarleik og Aron (Rafn Eðvarðson) að verja vel og sóknarleikurinn smurður lengst af og ég er bara heilt yfir sáttur.“

ÍBV eru ekki komnir í jólafrí ennþá en þeir eiga inni leik gegn Stjörnunni í Garðabænum

„Við eigum einn útileik eftir, næst síðasta útileikinn. Við þurfum bara að halda haus og klára þetta ár með sóma og þann leik. Það er verðugt verkefni að fara í Garðabæinn og spila við vel mannað og vel þjálfað lið Stjörnunnar,“ sagði Arnar Pétursson brattur.

Júlíus: Þeir gengu á lagið þegar við vorum óöruggirJúlíus Þórir Stefánsson, leikmaður Gróttu, var að vonum svekktur eftir sannfærandi tap.

„Fyrri  hálfleikurinn var ekki eins og við hefðum viljað að hann hefði farið. Þeir keyra yfir okkur úr hraðahlaupum og við töpum aragrúa af boltum og erum í basli varnarlega með Kára (Kristján Kristjánsson). Þeir gengu á lagið eins og góð lið gera þegar við vorum óöruggir hvort við eigum að vera að stíga út eða vera niðri og annað.“

Síðari hálfleikurinn virtist ætla að vera eins en Gróttumenn stigu upp eftir erfiða byrjun.

„Við sýnum þó karakter (í síðari hálfleik) eftir 7-8 mínútur sem eru liðnar af seinni hálfleik þar sem það fer kannski eitthvað aðeins að sjá á okkur sóknarlega en þá aftur á móti eru ÍBV byrjaðir að skipta og kasta boltanum eitthvað annað en í markið.

Spurður hvort Grótta geti tekið eitthvað jákvætt úr leiknum svarar Júlíus:

„Nei, í raun og veru ekki nema að við endum seinni hálfleik á núlli en ég held það sé voða fátt sem við getum tekið úr þessu. Það verður bara kærkomið að fá jólapásuna núna og janúar pásuna til að bæta inn einhverju í okkar leik.

Grótta hefur átt erfitt uppdráttar það sem af er móti, en hvers vegna?

„Við byrjum með eiginlega engan mannskap í sumar og byrjum mótið sem óskrifuð stærð og enginn bjóst við neinu. Svo förum við að fá menn inná sem hjálpuðu okkur mikið og menn til baka úr meiðslum og þá fór þetta að líta aðeins betur út. Svo erum við búnir að fá 7 stig af 12 mögulegum í síðustu leikjunum. Ég held að það sé svo sem ekkert slæmt og við munum bara halda áfram að byggja ofan á það þegar líður á tímabilið,“ sagði Júlíus að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira