Umfjöllun og viðtöl: Valur - Fjölnir 34-31 | Kaflaskiptur leikur á Hlíðarenda

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Anton Rúnarsson, leikmaður Vals.
Anton Rúnarsson, leikmaður Vals. vísir/ernir
Valur og Fjölnir mættust í kvöld á Hlíðarenda í Olís deild karla en Valsmenn unnu þar öruggan sigur 34-31 og komust aftur upp fyrir ÍBV í annað sæti deildarinnar.

Fjölnir var þó liðið sem byrjaði leikinn af meiri krafti og var með þriggja marka forskot eftir korter, 6-9. Valsmenn sem höfðu verið hálfgerðir klaufar fyrstu mínúturnar náðu sér þá á strik og fóru með forystu til hálfleiks, 18-15.

Botnlið Fjölnis náði sér svo aldrei almennilega á strik í seinni hálfleik en eftir 45 mínútur var Valur með tíu marka forskot, 29-19.

Valsmenn leyfðu þá ungum og óreyndum mönnum að spreyta sig sem gaf Fjölnismönnum til að laga stöðuna en þrátt fyrir þriggja stiga mun í lokin var sigur Valsmanna aldrei í neinni alvöru hættu.

Valur er því með 21 stig í öðru sæti deildarinnar en ÍBV á þó leik til góða og getur með sigri komist einu stigi á undan Val. Fjölnir situr sem fyrr á botni deildarinnar.

Afhverju vann Valur?

Gæði og stöðugleiki voru einfaldlega meiri Valsmegin sem átti ekki í miklum vandræðum um leið og liðið fann taktinn.

Valsmenn voru ekki í neinum alvöru takti nema helming leiksins en sá kafli skilaði sér í 10 marka forystu og brekkan orðin allt of brött fyrir gestina.

Hverjir stóðu upp úr?

Einar Baldvin Baldvinsson, hin vel greiddi markaður Vals, breytti stöðu mála er hann kom inn í leikinn. Sigurður Ingiberg, hin markvörður Vals, byrjaði inn á en eftir korters leik hafði hann ekki varið einn einasta bolta og Einar kom því inn í stöðunni 6-9, Fjölni í vil og átti frábæran leik og endaði leikinn með 15 varða bolta.

Anton Rúnarsson var einnig frábær fyrir Val og endaði leikinn með 9 mörk og voru tvö þeirra af vítalínunni.

Hvað gekk illa?

Sókn og varnarleikur Fjölnis var í basli og kom aðal ógnin frá þeim, sem fyrr, frá Kristjáni Erni, en hann skoraði 8 mörk. Ástæða þess að hann fer ekki flokk þeirra sem stóðu upp úr er að þessi átta mörk komu úr 18 skotum en hann var í raun eina ógn Fjölnis manna.

Theodór Ingi lagaði þá stöðu eilítið en hann skoraði 6 mörk en þau komu nær öll á lokamínútum leiksins þegar leikurinn var þá þegar tapaður.

Hvað gerist næst?

Nú tekur við langt jólafrí en næstu leikir liðanna verður 31. janúar á næsta ári. Þá mætir Valur lið Selfyssinga en Fjölnir tekur á móti ÍR.

Arnar: Við vorum klaufar„Við vorum klaufar,“ sagði Arnar Gunnarsson, þjálfari Fjölnis, eftir 34-31 tap hans manna gegn Val í Olís deild karla í dag.

Fjölnir byrjuðu leikinn af krafti en í seinni hluta fyrri hálfleiks féll gólfið undan leik liðsins og Valur snéri taflinu við.

„Það var 5-0 kafli í fyrri hálfleik, Val í vil, þegar við vorum búnir að vera betri aðilinn sem snéri leiknum,“ sagði Arnar og var ósáttur með dauðafæri sem fóru forgörðum í lok fyrri og byrjun seinni hálfleiks.

„Við endum fyrri hálfeikinn á að klúðra þremur dauðafærum og hefjum svo seinni á sama hátt. Þá er kominn munur sem erfitt er að brúa.“

Hann sagði sitt lið hafa skorað nóg en að varnarleikurinn yrði að vera betri. Nú tekur svo langt jólafrí við og segir hann stefna á að vinna vel í varnarleik liðsins fram að næsta leik sem er gegn ÍR þann 31. janúar.

„Við erum á svipuðum slóðum og flestir reiknuðu með en auðvitað viljum við vera ofar. Við verðum að nýta þessa pásu vel í að þétta okkar varnarleik. Það myndi svo auðvitað skila sér í betri markvörslu líka.“

Guðlaugur: Ætlum að njóta hátíðar ljóss og friðarGuðlaugur Arnarsson, þjálfari Vals, var ánægður með sigurinn í dag í síðasta leik fyrir jólafrí gegn Fjölni.

„Við unnum gott Fjölnis lið sem veitti okkur verðuga keppni hér í dag. Ánægður með stigin og viðhorfið. Það var mikill hraði í leiknum og ég er mjög ánægður með leik okkar í dag.“

Valur byrjaði leikinn illa og eftir korters leik var Valur þremur mörkum undir og einungis búið að skora sex mörk.

„Við vorum með fjóra tapaða bolta á fyrstu tíu mínútunum þannig við fórum of æstir inn í leikinn. En um leið og við náðum tökum á okkur þá náðum við að sigla þessu.“

Eftir að hafa verið með tíu marka forskot á lokamínútunum náði Fjölnir að minnka bilið í einungis þrjú mörk en leikurinn endaði 34-31. En veldur þetta Guðlaugi einhverjum áhyggjum?

„Auðvitað hefur maður alltaf áhyggjur af því að missa niður forystu en við vorum á þessum tímapunkti bara að nýta breiddina. Það ber líka að hrósa Fjölni fyrir að þeir hættu aldrei að hlaupa og refsuðu okkur vel á lokamínútunum.“

Nú tekur við langt jólafrí og er Guðlaugur með áætlunina fram að næsta leik í lok janúar á hreinu.

„Fyrst ætlum við að fara í frí og njóta hátíð ljóss og friðar og vera með fjölskyldunni. Svo förum við af fullu trukki í janúar og verðum tilbúnir í slaginn í febrúar.“

Kristján Örn: Verðum að fara að fá þessi helvítis stig„Þetta er sárt. Við gáfum okkur alla í þetta svo eru litlir hlutir sem skipta miklu máli sem við klikkum á,“ sagði Kristján Örn Kristjánsson, leikmaður Fjölnis, eftir tap hans manna gegn Val.

„Förum í hálfleik 18-15 undir þegar við hefðum í raun getað farið yfir, 18-15, inn í seinni hálfleikinn. Einar Baldvin kom inn og varði nokkra og við fengum á okkur mörk úr hraðupphlaupi. Þessir hlutir telja mjög mikið.“

Hann segir einfalt hvað liðið þarf að gera betur eftir áramót.

„Fara að vinna þessi helvítis stig. Við gerðum okkar besta í dag og ég er mjög fúll að hafa ekki fengið allavega eitt stig úr þessum leik.“

Hann bendir réttilega á að það er stutt á milli sigurs og taps í handboltanum og að nokkur stig myndi gera stöðu liðsins mun betri.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira