Innlent

Sigmundur Davíð krafðist þess að Svandís yrði dregin frá kökuborðinu

Jakob Bjarnar skrifar
Sigmundur segir Svandísi hafa ólíkt meiri áhuga á kókostertunni á kökuborði Alþingis en fyrirspurnum stjórnarandstöðunnar.
Sigmundur segir Svandísi hafa ólíkt meiri áhuga á kókostertunni á kökuborði Alþingis en fyrirspurnum stjórnarandstöðunnar.
Nú rétt áðan bar það til tíðinda á þinginu að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, krafðist þess í umræðum um fjárlög, að Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra væri viðstödd þær umræður.

„Heilbrigðisráðherrann stóð reyndar við kökuborðið, það sama og sá sem hér stendur stóð við á sínum tíma, þegar hans var saknað úr þessum sal,“ sagði Sigmundur Davíð og uppskar hlátrasköll í þingsalnum.

„Nú held ég að það sé kókosterta, ef ég sá rétt,“ sagði Sigmundur Davíð og beindi þeirri ósk til forseta þingsins að hann beitti sér fyrir því að Svandís kæmi í salinn og væri til viðtals.

Hér hefur orðið viðsnúningur því eitt sinn var það Svandís sem kallaði eftir Sigmundi Davíð í salinn, í því sem kallað var stóra kökumál Sigmundar. Sem þá var af Svandísi sakaður um að vilja heldur beina athygli sinni að kruðeríinu en svara stjórnarandstöðunni. Þá mun það hafa verið súkkulaðiterta með perum sem freistaði.

Sigmundur var síðar vændur um að hafa of mikinn áhuga á kökunum, þannig spurði Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar, af öðru tilefni, hvort „hann væri að éta köku enn eina ferðina?“

Sjá má myndband af ræðu Sigmundar Davíðs hér að neðan en hann lætur ummælin sem hér er fjallað um falla strax í upphafi myndbandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×