Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Afturelding 27-30 | Mosfellingar enduðu árið á sigri

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron Dagur Pálsson, leikmaður Stjörnunnar.
Aron Dagur Pálsson, leikmaður Stjörnunnar. vísir/anton
Afturelding vann sinn sjötta sigur í síðustu átta deildarleikjum þegar liðið lagði Stjörnuna að velli, 27-30, í 14. umferð Olís-deildar karla í kvöld.

Stjarnan byrjaði leikinn betur og með Sveinbjörn Pétursson í góðum gír í markinu komst liðið í 5-3.

Þá gaf Afturelding í, skoraði fjögur mörk í röð og náði frumkvæðinu. Mosfellingar náðu mest fimm marka forskoti en staðan í hálfleik var 11-15, Aftureldingu í vil.

Stjarnan byrjaði seinni hálfleikinn þokkalega en það var ekki fyrirboði um það sem koma skildi. Afturelding náði aftur undirtökunum, lék sér að Stjörnuvörninni og jók forskotið.

Garðbæingar voru í eltingaleik allan seinni hálfleikinn og náðu aldrei að minnka muninn nema í þrjú mörk. Mosfellingar áttu alltaf svör í sókninni og gerðu vel í að verja forskotið. Lokatölur 27-30, Aftureldingu í vil.

Af hverju vann Afturelding?

Leikur Mosfellinga var mun heilsteyptari en leikur Stjörnumanna. Vörn Aftureldingar hefur verið misjöfn í vetur en hún var góð í kvöld og markvarslan ágæt.

Sóknarleikur Aftureldingar gekk svo ljómandi vel undir styrkri stjórn Elvars Ásgeirssonar sem hélt uppteknum hætti frá því í síðasta deildarleik gegn FH.

Varnarleikur Stjörnunnar var ekki nógu sterkur í kvöld og markvarslan nær engin, fyrir utan í byrjun leiks.

Hverjir stóðu upp úr?

Liðsheildin var sterk hjá Aftureldingu. Elvar hefur oft skorað meira en stýrði sóknarleiknum virkilega vel og átti fjölmargar stoðsendingar.

Árni Bragi Eyjólfsson og Kristinn Hrannar Bjarkason voru góðir og Mikk Pinnonen átti einn sinn besta leik í vetur. Böðvar Páll Ásgeirsson var einnig öflugur í vörninni.

Leó Snær Pétursson og Aron Dagur Pálsson stóðu upp úr í liði Stjörnunnar. Leó leysti skyttuhlutverkið ágætlega og Aron Dagur var allt í öllu í sóknarleik heimamanna. Hann skoraði níu mörk og átti þátt í mun fleiri til viðbótar.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Stjörnunnar var stirður og einhæfur lengst af. Egill Magnússon byrjaði leikinn vel en svo slökknaði á honum. Horna- og línuspil var ekki til staðar hjá Stjörnunni í kvöld og því mæddi mikið á útilínunni.

Þá var vörn og markvarsla Garðbæinga undir pari eins og hún hefur verið alltof oft í vetur. Sveinbjörn hefur ekki náð sér á strik á tímabilinu og þótt Lárus Gunnarsson hafi átt ágætis innkomur í vetur náði hann sér heldur ekki á strik í kvöld.

Hvað gerist næst?

Stjörnumenn mæta Eyjamönnum á fimmtudaginn í síðasta leik Olís-deildanna á árinu 2017.

Mosfellingar eru komnir í jólafrí. Þeir mæta Fram í fyrsta leik sínum eftir áramót. Sá leikur er á dagskrá 31. janúar.

Einar: Þetta er alveg óþolandi

Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar, var súr í broti eftir þriggja marka tap sinna manna, 27-30, fyrir Aftureldingu í kvöld.

„Við náðum ekki toppleik og vorum svolítið frá því. Við fengum á okkur 30 mörk og vörn og markvarsla var ekki góð í leiknum. Við náum ekki að tengja saman tvo sigurleiki í röð. Við erum alltof rokkandi,“ sagði Einar.

„Það var margt allt í lagi í kvöld en það er 2-3 mínútna kafli í fyrri hálfleik sem gerir okkur rosalega erfitt fyrir. Við lentum fimm mörkum undir. Fram að því var þetta leikur.“

Einar er orðinn þreyttur á sveiflukenndum leik Stjörnunnar.

„Þetta er alveg óþolandi en við erum að vinna í þessu og reyna að bæta þetta,“ sagði Einar.

Stjörnumenn hafa ekki langan tíma til að gráta tapið því á fimmtudaginn mæta þeir Eyjamönnum í síðasta leik sínum á þessu ári.

„Sem betur fer er stutt í næsta leik. Nú þurfum við að jafna okkur eftir þennan leik, fara vel yfir þetta, mæta ferskir á fimmtudaginn og reyna að ná í stig,“ sagði Einar að lokum.

Einar Andri: Árangurinn vonbrigði

Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, var afar sáttur með sigurinn á Stjörnunni og frammistöðu sinna manna.

„Mér fannst við frábærir. Sóknin var frábær, gríðarleg bæting frá síðasta leik gegn Fram í bikarnum. Hugarfar leikmanna var gott og mikil samheldni og einbeiting í hópnum. Ég gef þeim hæstu einkunn fyrir þennan leik,“ sagði Einar Andri.

Hann sagði að Mosfellingar hafi verið staðráðnir í að bæta upp fyrir tapið gegn Fram í Coca Cola-bikarnum á fimmtudaginn.

„Ef það er eitthvað varið í menn koma þeir og svara. Fyrir þennan leik vorum við búnir að spila mjög vel í sjö deildarleikjum í röð. En þá styttist alltaf í slaka leikinn og því miður kom hann í bikarnum. Það var súrt,“ sagði Einar Andri.

Þjálfarinn dregur ekki fjöður yfir það að árangur Aftureldingar fyrir áramót sé vonbrigði.

„Hann er heilt yfir vonbrigði. Við vorum bara með eitt stig eftir fyrstu sex umferðirnar. En við erum sex sigra í síðustu átta leikjum. Heilt yfir eru þetta vonbrigði en á sama tíma erum við í 6. sæti. Holan er ekki dýpri en það og það eru sóknarfæri að bæta sig,“ sagði Einar Andri að endingu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira