Umfjöllun og viðtöl: Selfoss - Fram 36-29 | Aldrei spurning á Selfossi

Benedikt Grétarsson skrifar
Teitur Örn Einarsson, stórskytta Selfyssinga.
Teitur Örn Einarsson, stórskytta Selfyssinga. vísir/vilhelm
Selfoss landaði ansi átakalitlum sigri gegn Fram, 36-29 þegar liðin mættust í 14. umferð Olísdeildar karla í handknattleik.

Staðan í hálfleik var 19-11. Einar Sverrisson skoraði átta mörk fyrir Selfoss en Matthías Daðason var markahæstur í liði Fram með níu mörk.

Selfoss er í þriðja sæti deildarinnar en hefur leikið tveimur leikju meira en ÍBV sem situr í fjórða sæti. Fram situr áfram í níunda sæti og þarf að nýta jólafríið vel.

Leikurinn náði aldrei að verða spennandi, yfirburðir Selfyssinga voru bara of miklir. Það þarf í raun ekki að eyða miklum tíma í að fara yfir gang leiksins en í stuttu máli var hann svona: Selfoss komst yfir, bætti við forskotið og sigraði örugglega, punktur.

Þetta gerðu Selfyssingar þrátt fyrir að Atli Ævar Ingólfsson hafi ekkert komið við sögu í leiknum..

Af hverju vann Selfoss leikinn?

Selfyssingar eru ofar í deildinni og með betri leikmenn innanborðs. Þegar brothættu liði Fram er svo bætt inn í jöfnuna, er einfalt að komast að þeirri niðurstöðu að þessi úrslit voru „eðlileg“.

Það hefði komið ansi mörgum á óvart ef Fram hefði tekið eitthvað úr þessum leik. Undirritaður er í þeim hópi.

Hverjir stóðu upp úr?

Selfyssingar léku vel sem liðsheild og margir leikmenn labba sáttir frá þessum leik. Einar Sverrisson skoraði mikið og lék vel. Helgi Hlynsson er mikill stuðkall í markinu og hinn ungi Haukur Þrastarson er gríðarlegt efni.

Matthías Daðason kom með mikinn kraft í lið Fram í seinni hálfleik eftir að hafa vermt tréverkið allan fyrri hálfleikinn.

Hvað gekk illa?

Það gekk illa að breyta þessu í spennuleik. Selfyssingar eru auðvitað sáttir við það en það var öruggt frá fyrstu mínútu hvort liðið væri sterkara og myndi klára dæmið. Það gekk líka bölvanlega að skora í autt markið yfir allan völlinn, þrátt fyrir ótal tilraunir til þess.

Hvað gerist næst?

Jólin er það sem gerist næst. Sjáumst eftir rúman mánuð.

Patrekur: Lykilatriðið að nýta jólafríið vel og ég veit að strákarnir gera þaðPatrekur Jóhannesson gat ekki annað en hrósað sínum mönnum eftir að Selfoss vann Fram 36-29 í Olísdeild karla í kvöld. Selfyssingar hafa leikið vel í vetur og þetta var fimmti sigurleikur liðsins í röð.

„Við vorum góðir í dag. Við spiluðum frábæra vörn og Helgi er að verja vel í markinu. Við leystum allt það sem þeir buðu upp á og vissum að þeir myndu reyna að spila sjö gegn sex í sókninni. Ég er bara mjög ánægður með strákana því að þetta var ekkert auðvelt. Framarar eru með þannig lið að þeir geta dottið niður á helvíti góða leiki en við vorum bara sterkari.“

Þjálfarinn reyndi bendir á að sigurinn hafi verið öruggur þrátt fyrir forföll í liði Selfyssinga.

„Það má ekki gleyma því að Elvar hefur ekki spilað með okkur síðustu sjö leiki og Guðni hefur líka verið mikið frá. Atli situr á bekknum allan leikinn í kvöld vegna meiðsla en þá kemur gutti úr fjórða flokki inn (Tryggvi Þórisson) og skorar tvö góð mörk. Það er eðlilegt að það rúlli ekki allt 100% með svona unga stráka inni á vellinum en ég er mjög ánægður með liðið.“

Selfoss er í fjórða sæti Olísdeildar og það er staða sem ekki margir áttu von á fyrir mót.

„Við erum komnir með 20 stig og nú er bara lykilatriði að nýta jólafríið vel og ég veit að þeir gera það þessir strákar. Okkur var spáð sjöunda sæti fyrir mót og þetta er fín staða. Það eru búnir 14 leikir og átta eftir. Við þurfum bara að halda áfram og nota fríið til að fara aðeins yfir hlutina,“ sagði Patrekur og bætti við:

„Ég get samt ekki verið annað en ánægður með hvernig við höfum verið að spila. Það er frábært að fylgjast með þessum strákum, mikil útgeislun og samstaða í hópnum,“ sagði Patrekur og viðurkenndi að hann færi brosandi inn í hangikjötið.

Guðmundur: Nýti jólafríið í að kjöta menn upp„Við vorum að spila ágætlega á köflum en þetta fer bara í fyrri hálfleik þegar við klúðrum dauðafærum. Það er fyrsti punkturinn sem klikkar hjá okkur og svo erum við bara að tapa alltof mörgum einvígum einn á einn í vörninni. Mínir menn börðust en Selfoss er bara með frábært lið og vel þjálfað. Selfyssingar voru bara númeri of stórir fyrir mitt lið í dag,“ sagði raunsær GUðmundur Helgi Pálsson eftir sjö marka tap Fram gegn Selfossi.

Matthías Daðason var mjög sprækur í seinni hálfleik í liði Fram en hann sat á bekknum allan fyrri hálfleikinn. Var Matthías kannski meiddur?

„Nei nei, Andri hefur bara verið mjög góður hjá okkur en Matti kemur með frábæra innkomu í leikinn. Ég hefði kannski átt að setja hann fyrr inn á völlinn, maður veit aldrei.“

Guðmundur segir markmiðin skýr og leiðin að árangri er ljós í hans huga.

„Við ætlum í úrslitakeppnina og það er ekkert leyndarmál. Við þurfum bara fyrst og fremst að vinna í okkar stöðugleika, fá betri markvörslu í kjölfarið eftir betri vörn og þá getum við verið drullugóðir. Við höfum alltaf verið að skora mikið en vörnin þarf að batna.“

„Nú er það bara lyftingarsalurinn fyrir strákana um jólin. Það þarf að kjöta menn aðeins upp, borða mikið um jólin og þyngjast örlítið. Ætli við séum ekki með léttasta liðið í deildinni,“ sagði nokkuð hress Guðmundur Helgi Pálsson

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira