Sport

Snorri og Freydís skíðafólk ársins

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Snorri Einarsson
Snorri Einarsson vísir/getty
Snorri Einarsson og Freydís Halla Einarsdóttir eru skíðafólk ársins. Skíðasamband Íslands greindi frá vali sínu í dag.

Freydís Halla keppir í alpagreinum og hefur átt mjög gott ár. Hún varð í 6. sæti í svigi á móti í Bandaríkjunum, en það var í fyrsta skipti sem hún endaði í topp 10 í móti í Norður-Ameríku bikarnum.

Hún var 15 sinnum í topp 10 á alþjóðlegum mótum og fimm sinnum á verðlaunapalli. Hún vann mót í stórsvigi í Gore Mountain í Bandaríkjunum og endaði í 11. sæti á bandaríska meistaramótinu í svigi.

Freydís varð þrefaldur Íslandsmeistari í alpagreinum og lenti í 47. sæti heimsmeistaramótsins í stórsvigi, en hún stökk upp um 260 sæti á heimslista FIS í stórsvigi.

Snorri er í sérflokki í keppni í skíðagöngu á Íslandi og náði besta árangri allra skíðagöngumanna frá SKÍ frá upphafi á árinu.

Hann hefur náð góðum árangri á Heimsbikarmótum í haust og þrisvar orðið á meðal 30 efstu.

Snorri hefur unnið sér inn þáttökurétt á Vetrarólympíuleikunum í febrúar og er eini Íslendingurinn sem er kominn með öruggan keppnisrétt, aðrir íslenskir keppendur eru inni á kvóta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×