Innlent

Ráða verktaka með vinnuvélar til eyðingar lúpínu

Sveinn Arnarsson skrifar
Það má með sanni segja að lúpína kljúfi þjóðina í tvennt. Annaðhvort er hún hin mesta plága eða gjöful landgræðsluplanta.
Það má með sanni segja að lúpína kljúfi þjóðina í tvennt. Annaðhvort er hún hin mesta plága eða gjöful landgræðsluplanta. vísir/Ernir
Verktaki með öflug verkfæri verður fenginn til að útrýma skógarkerfli og lúpínu næsta sumar í landi Mosfellsbæjar. Er talið að plönturnar ógni líffræðilegri fjölbreytni á viðkvæmum svæðum. Verði því ekki komist hjá því að ráða verktaka í stað þess að láta vinnuskólabörn sjá um eyðinguna.

Mosfellsbær hefur ákveðið að verja þremur milljónum króna til verksins. Að mati umhverfisstjóra er eyðing þessara ágengu plöntutegunda erfið vegna þess hve harðgerar þær eru og hversu fljótt og mikið þær sá sér í bæjarlandinu. Þetta kemur fram í minnisblaði sem lagt var fyrir umhverfisnefnd Mosfellsbæjar á síðasta fundi hennar. „Því er nauðsynlegt að fá til þess verktaka sem hafa öflug verkfæri sem henta til þess verks,“ segir í minnisblaðinu.



Bjarki Bjarnason, rithöfundur og bæjarfulltrúi.
Bjarki Bjarnason, formaður umhverfisnefndar Mosfellsbæjar, segir það ekki mögulegt né að vilji sé til þess að útrýma lúpínu í bæjarlandinu, hún sé orðin það útbreidd. Hins vegar skipti máli að hefta útbreiðslu hennar á náttúruverndarsvæðum innan bæjarmarka. 

„Nú í fyrsta skipti er sérstök fjárveiting sett í málaflokkinn. Þetta er ekki stór upphæð í stóra samhenginu. Nú getum við fengið verktaka til að slá lúpínu og kerfil áður en plönturnar sá sér,“ segir Bjarki. 

„Lúpínan er auðvitað umdeildasta planta landsins en þetta snýr einnig að kerflinum. Menn eru nú á einu máli um að sú planta sé til óþurftar.“

Lögð verður áhersla á að verja viðkvæm svæði í bænum þar sem þessar ágengu plöntur hafa ekki enn náð að dreifa sér að ráði.

„Við erum ekki á leið í neitt lúp­ínustríð. Aðeins að slá hana snemmsumars þannig að hún beri ekki eins mikið af fræjum,“ segir Bjarni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×