Innlent

Ófrísk kona flúði slagsmál ölvaðra manna í heimahúsi í Sandgerði í dag

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Frá Sandgerðisbæ.
Frá Sandgerðisbæ. Vísir/Stefán
Lögreglan var kölluð á heimili í Sandgerði í dag vegna slagsmála ölvaðra karlmanna. Ófrísk kona var á heimilinu þegar ágreiningur varð á milli eiginmanns hennar og vinnufélaga hans.  RÚV birti fyrr í dag frétt um að ófrísk kona hefði slasast í Sandgerði.  Fréttin birtist eftir að lögreglan á Suðurnesjum tísti um útkall, sem var hluti af löggutíst Twitter-maraþoninu.

Lögreglu hafði borist tilkynning um að ráðist hefði verið á ófríska konu og gerandinn hafi ekið ölvaður af vettvangi . Fulltrúi frá lögreglunni á Suðurnesjum sagði í samtali við Vísi í kvöld að aðeins hafi verið um að ræða ágreining í heimahúsi.  Konan náði að komast út af heimilinu áður en slagsmálin brutust út og er óhult.

Eftir fyrirspurn fréttastofu tísti lögreglan á Suðurnesjum aftur um málið og sagði að þetta hefði ekki verið alveg eins og tilkynningin hljómaði í upphafi.  Segir lögregla að ástæðan fyrir misskilningnum í kringum útkallið hafi tengst ölvun og tungumálaörðugleikum. Var því ekki ráðist á ófríska konu og er hún óhult.

Maðurinn sem var gestur á heimilinu var farinn þegar lögregla kom á staðinn. Málið er nú í rannsókn. 

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×