Erlent

Drög að ályktun Öryggisráðs SÞ: Ákvörðun Trumps hafi ekkert lagalegt gildi

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kjósa um stöðu Jerúsalem snemma í vikunni.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kjósa um stöðu Jerúsalem snemma í vikunni. Vísir/afp
Egyptar hafa gert drög að ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og er þau komin í hendur forsvarsmanna allra þeirra fimmtán ríkja sem mynda Öryggisráðið. Heimildir Reuters herma að í drögunum sé þess krafist að breyting á stöðu Jerúsalem hafi ekkert lagalegt gildi.

Í drögunum að ályktuninni eru hvorki Bandaríkin né Donald Trump nefnd á nafn. Talið er að innan Öryggisráðsins sé breiður stuðningur við ályktunina en á sama tíma er það talið viðbúið að Bandaríkin hafni henni.

Í drögum að ályktun um stöðu Jerúsalem segir að: „því er lýst yfir að engar ákvarðanir eða aðgerðir, sem var ætlað að hafa breytt eðli stöðu eða lýðfræðilegri samsetningu hinnar Helgu borgar Jerúsalem hafa lagalega þýðingu. Þær verði marklausar og felldar úr gildi og þess er krafist að ákvörðunin verði afturkölluð í samræmi við ályktun Öryggisráðsins,“ er haft eftir heimildarmanni Reuters.

Til þess að ályktun Öryggisráðsins sé samþykkt þurfa níu af fimmtán ríkjum þess að styðja ályktunina en í ljósi þess að Bandaríkin eru eitt af fimm fastaríkjum í öryggisráðinu sem hafa neitunarvald getað þau stöðvað málið. Fastaríkin sem búa yfir neitunarvaldi í Öryggisráðinu eru, auk Bandaríkjanna, Frakkland, Bretland, Rússland og Kína.

Þann sjötta desember síðastliðinn greindi Bandaríkjaforseti frá þeirri ákvörðun sinni að Jerúsalem yrði viðurkennd sem höfuðborg Ísraels auk þess sem sendiráð Bandaríkjanna yrði flutt til Jerúsalem.

Fjölmenn mótmæli hafa staðið yfir frá því að Bandaríkjaforseti upplýsti um ákvörðun sína. Myndin er af átökum á Vesturbakkanum.visir/afp
Í kjölfar ákvörðunar Bandaríkjastjórnar hafa mótmæli verið haldin í Jerúsalem, Vesturbakkanum og Gaza. Á föstudag skaut herlið Ísraelsmanna fjóra Palestínumenn til bana og þá særðust hundrað og fimmtíu í átökunum.

Ákvörðun forsetans hefur víða um heim verið mótmælt harðlega. Palestínumenn segja að með útspili Bandaríkjaforseta hafi hann ógnað friðarviðræðum. Sádí Arabar fordæma stefnubreytingu Trumps og þá hefur meirihluti þeirra ríkja sem mynda Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna farið fram á neyðarfund.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×