Innlent

Björgunarsveit sótti 11 einstaklinga sem sátu fastir í bílum í Heiðmörk

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Björgunarsveit Hafnarfjarðar
Björgunarsveit Hafnarfjarðar var boðuð út á áttunda tímanum í kvöld vegna fólks sem var í vandræðum með bíla sína í mikilli hálku við Hjallaflatir í Heiðmörk. Tveir hópar björgunarsveitafólks voru komnir á vettvang um klukkan átta. 

Eins og kom fram á Vísi fyrr í kvöld var veginum lokað vegna hálku og þurftu nokkrir ökumenn aðstoð við að komast í burtu í dag. Ekki fengust upplýsingar um það hvort bílarnir hefðu farið í Heiðmörk eftir að veginum var lokað. 

Flughált er á þessum slóðum og var því ekki talið heppilegt að reyna að koma bílunum í burtu, sem flestir voru fólksbílar. Því voru 11 manns fluttir af vettvangi í kvöld og aðstoðaðir við að komast til byggða en bílar þeirra skildir eftir.

Flughált er í Heiðmörk og aðstæður erfiðar.Björgunarsveit Hafnarfjarðar
Þegar verkefnum var lokið á vettvangi, fór björgunarsveitafólkið akandi um alla helstu vegi í Heiðmörk og gengu úr skugga um að ekki væru fleiri í vanda. Samkvæmt upplýsingum frá björgunarsveitinni var aðgerðum lokið rétt fyrir klukkan tíu og allir hópar komnir til baka í hús björgunarsveitarinnar.

Samkvæmt upplýsingum frá Skógræktarfélagi Reykjavíkur mun Vegagerðin salta veginn í nótt og er stefnt að því að hafa veginn opinn á morgun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×