Erlent

Bandaríkin eyddu milljónum í leynilegar rannsóknir á fljúgandi furðuhlutum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Pentagon, höfuðstöðvar Bandaríska varnarmálaráðuneytisins,
Pentagon, höfuðstöðvar Bandaríska varnarmálaráðuneytisins, Vísir/AFP
Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur varið milljónum Bandaríkjadala til rannsókna á svokölluðum „fljúgandi furðuhlutum.“ Verkefninu var komið á fót árið 2007 og slaufað fimm árum síðar. Aðeins fáeinir embættismenn vissu af rannsóknunum. Þetta kemur fram í ítarlegri úttekt bandaríska dagblaðsins New York Times.

Í skjölum úr verkefninu, sem dablaðið hefur undir höndum, eru skrásettar lýsingar á „undarlegu, hraðskreiðu flugfari“ og hlutum sem svifu í loftinu. Talið er að rannsóknirnar hafi kostað varnarmálaráðuneytið yfir 20 milljónir Bandaríkjadala áður en þær urðu niðurskurðarhnífnum að bráð.

Fyrrverandi öldungadeildarþingmaðurinn Harry Reid, sem sat á þingi fyrir Demókrataflokkinn, hrinti verkefninu í framkvæmd á sínum tíma. Í samtali við New York Times sagði Reid að hann „skammaðist sín ekki fyrir að hafa komið þessu af stað.“

„Ég hef gert svolítið sem enginn hefur gert áður,“ bætti Reid við sem tjáði sig auk þess um málið á Twitter-reikningi sínum í gær. Þar ítrekaði hann mikilvægi þess að Bandaríkin beittu sér fyrir rannsóknum á fljúgandi furðuhlutum.

Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins, BBC, eru fljúgandi furðuhlutir enn til rannsóknar hjá varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna. Vegna skorts á fjármagni eru rannsóknirnar þó gerðar samhliða öðrum verkefnum.


Tengdar fréttir

Nýbirt skjöl um JFK valda vonbrigðum

Stór hluti þeirra skjala er varða morðið á John F. Kennedy voru birt í fyrrinótt. Nokkrum hluta skjalanna var haldið eftir á grundvelli þjóðarhagsmuna og þjóðaröryggis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×