Erlent

Fimmtíu ár frá því að forsætisráðherra Ástralíu stakk sér til sunds og sást aldrei framar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Einu ummerkin um Harold Holt sem fundust á ströndinni voru fötin sem hann skildi eftir sig.
Einu ummerkin um Harold Holt sem fundust á ströndinni voru fötin sem hann skildi eftir sig.
Fimmtíu ár eru í dag liðin frá því að Harold Holt, þáverandi forsætisráðherra Ástralíu, stakk sér til sunds við Cheviot-strönd í grennd við Melbourne. Hann sást aldrei framar og lík hans fannst aldrei.

Ítarlega er fjallað um tímamótin á vef CNN. Þar segir að langur og farsæll stjórnmálaferill Holt hafi fallið algjörlega í skuggann á því hvernig hann hvarf og vangaveltum tengdum því.

Talið er að hann hafi drukknað og var minningarathöfn haldin þar sem margir af helstu leiðtogum þjóðríkja heimsins létu sjá sig, þar á meðal Lyndon B. Johnson, þáverandi forseta Bandaríkjanna.

Vinsæll stjórnmálamaður

Holt tók við embætti í janúar árið 1966, tæplega tveimur árum áður en hann hvarf og í samtali við CNN segir John Warhurst, prófessor í stjórnmálafræði, að sé litið til baka hafi hann verið fyrsti nútímalegi forsætisráðherra Ástralíu.

Í umfjöllun CNN er helstu afrek hans sem forsætisráðherra tíunduð, þar á meðal að hafa staðið fyrir því að Ástralía tók upp dollar í stað punda. Þá hafi hann einnig verið fyrsti forsætisráðherrann sem beitti sér fyrir réttindum frumbyggja Ástralíu.

Þá vann hann að því að binda enda á stefnu ástralska yfirvalda um að takmarka innflutning fólks frá löndum öðrum en Evrópulöndum, auk þess sem hann efldi samskipti Ástrala við helstu nágrannaríki í Asíu.

Þá byggði hann upp sterkt samband Ástralíu og Bandaríkjanna sem lifir enn þann dag í dag en hann og Lyndon B. Johnson urðu nánir vinir.

Holt þótti vinsæll stjórnmálamaður.Vísir/Getty

En hvernig hvarf hann?

Sunnudaginn 17. desember árið1967 ákvað Holt að fá sér göngutúr á ströndinni í grennd við orlofsíbúð hans. Holt var sterklega byggður sem hafði áhuga á köfun. Fór hann á ströndina ásamt vinkonu sinni og nokkrum gestum hans.

Skömmu áður hafði Holt hins vegar farið í aðgerð á öxl og hafði honum verið ráðlagt af læknum að taka því rólega eftir aðgerðina. Svo virðist sem hann hafi ekki hlýtt þeim fyrirmælum enda fór hann í tennis deginum áður og stakk hann sér svo til sunds í strandferðinni.

Vitni sögðu lögreglu síðar að mikill öldugangur hafi verið á ströndinni umræddan dag en það virðist ekki hafa komið í veg fyrir sundferð Holt. Vitni lýstu því hvernig hann hafi alltaf synt lengra og lengra þangað til hann hafi einfaldlega horfið.

„Ég þekki þessa strönd eins og lófann á mér,“ er eitt af því síðasta sem Holt er sagður hafa sagt við félaga sína á ströndinni. Hann sást aldrei framar.

Vitni bendir á staðinn þar sem það sá Holt síðast.Vísir/Getty

Flugumaður Sovétríkjanna eða kínverskur njósnari?

Fregnirnar af hvarfi forsætisráðherrans slógu Ástrala og var gerð ítarleg leit að honum eða líki hans í sjónum við ströndina. Allt að 300 manns komu að leitinni sem var formlega hætt 5. janúar 1968. Það eina sem fannst voru fötin sem hann skildi eftir sig á ströndinni.

Ýmsar sögusagnir og samsæriskenningar um hvarf forsætisráðherrans litu dagsins ljós. Sumir fjölmiðlar töldu líklegt að Holt hefði framið sjálfsmorð, annað hvort vegna álags í starfi eða vegna þess að hann hafi verið í öngum sínum vegna erfiðs hjónabands.

Villtustu samsæriskenningarnar snerust um það að erlent ríki hefði átt hlut að máli, að annaðhvort sovéskir eða kínverskir flugumenn hefðu numið hann á brot.

Þá var einnig gefin út bók þar sem því var haldið fram að Holt hefði verið kínverskur njósnari og hann hafi, þennan örlaríka dag, flúið Ástralíu um borð í kínverskum kafbáti.

„Einfaldasta útskýringin er þó sú að hann hafi einfaldlega drukknað,“ segir Jim Frame, höfundur ævisögu Holt. Ástæður sögusagnanna og samsæriskenninganna hafi verið sú að á þessum tíma hafi fólk einfaldlega ekki trúað því að forsætisráðherrar gætu dáið undir þeim kringumstæðum sem urðu Holt að bana.

Ítarlega umfjöllun CNN má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×