Innlent

Símkerfi Icelandair lá niðri vegna álags

Kristín Ólafsdóttir og Sunna Sæmundsdóttir skrifa
Mikil örtröð hefur myndast við söluskrifstofu Icelandair á Keflavíkurflugvelli.
Mikil örtröð hefur myndast við söluskrifstofu Icelandair á Keflavíkurflugvelli. vísir
Gríðarlegt álag hefur verið á þjónustuveri flugfélagsins Icelandair vegna innhringinga frá farþegum í dag. Um tíma var álagið svo mikið að símkerfið lá niðri, að því er fram kom í hádegisfréttum Bylgjunnar.

Verkfall flugvirkja hjá Icelandair hófst klukkan sex í morgun. Maraþonfundi Flugvirkjafélags Íslands, Samtaka atvinnulífsins og Icelandair sem hófst klukkan 13:00 í gær lauk í nótt klukkan 02:30 án árangurs.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA) sagði í samtali við Vísi að líklegt sé að samninganefndir flugvirkja og SA muni hittast í dag til að ræða kjarasamning flugvirkja. Óskar Einarsson, formaður Flugvirkjafélags Íslands, segir að viðræður í nótt hafi að miklu leyti strandað á lengd samningsins.

Alls hefur tuttugu flugferðum til og frá Íslandi verið aflýst auk þess sem að seinkun varð á öllum flugferðum Icelandair frá Íslandi í morgun. Einungis þær vélar sem þegar höfðu verið skoðaðar af flugvirkjum í Keflavík fóru af stað, að sögn Guðjóns Arngrímssonar upplýsingafulltrúa Icelandair. Búast má við seinkunum á flugferðum félagsins frameftir degi.

Fjölmargir óánægðir farþegar hafa látið í sér heyra í gegnum samfélagsmiðla félagsins. Farþegar í tengiflugi hafa til að mynda margir kvartað yfir lélegu upplýsingaflæði og eins og áður hefur komið fram lá símkerfi Icelandair niðri um tíma vegna álags.

Verkfall flugvirkja getur haft áhrif á allt að tíu þúsund flugfarþega á dag en þeir sem eiga bókað sæti í aflýstu flugi eiga rétt á  endurgreiðslu eða breytigu á flugleið. Ef meiri en þriggja klukkustunda töf er á flugi eiga farþegar rétt á máltíðum og eftir atvikum hótelgistingu. Að sögn upplýsingafulltrúa Isavia var enn þá nokkuð rólegt andrúmsloft í Keflavík um hádegisbil í dag.


Tengdar fréttir

Verkfall flugvirkja: Reiknar með að deiluaðilar hittist í dag

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir að líklegt sé að samninganefndir flugvirkja og SA muni hittast í til að ræða kjarasamning flugvirkja. Verkfall flugvirkja Icelandair hófst í morgun en ekki hefur verið boðað til nýs samningafundar.

Verkfall flugvirkja Icelandair hafið

Verkfall flugvirkja hjá Icelandair hófst klukkan sex í morgun. Fundi samninganefnda flugvirkja og Samtaka atvinnulífsins lauk í nótt án árangurs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×