Erlent

Piñera tekur aftur við af Bachelet

Atli Ísleifsson skrifar
Sebastián Piñera var forseti Chile á árunum 2010 til 2014.
Sebastián Piñera var forseti Chile á árunum 2010 til 2014. Vísir/AFP
Sebastián Piñera mun aftur setjast í stól forseta Chile í mars á næsta ári. Síðari umferð forsetakosninganna fóru fram í Suður-Ameríkuríkinu um helgina þar sem hægrimaðurinn og auðjöfurinn Piñera vann öruggan sigur.

Andstæðingur Piñera, Alejandro Guillier, hefur þegar viðurkennt ósigur sinn og óskað Piñera til hamingju með sigurinn. Þegar búið var að telja nær öll atkvæðin var Piñera með 55 prósent en Guillier 45 prósent.

„Þrátt fyrir að mikill munur sé á okkur þá er margt sem sameinar okkur,“ sagði Piñera við stuðningsmenn sína í höfuðborginni Santiago í gærkvöldi.

Tekur aftur við af Bachelet

Hinn 68 ára Piñera, sem stýrði landinu á árunum 2010 til 2014, tekur við af hinni vinstrisinnuðu Michlle Bachelet sem hefur gegnt forsetaembættinu síðustu fjögur árin. Þetta verður í annað sinn sem Piñera tekur við embættinu af Bachelet sem var einnig forseti á áruinum 2006 til 2010.

Kosningaþátttaka var ekki mikil en einungis um sjö milljónir af sautján milljónum íbúa Santiago mættu á kjörstað.

Greiðslukortamógúll

Piñera hlaut mun fleiri atkvæði en Guillier í fyrri umferð kosninganna. Munurinn var minni í síðari umferðinni, fyrst og fremst þar sem vinstrimaðurinn Beatriz Sánchez lýsti þá yfir stuðningi við Guillier.

Íhaldsmaðurinn Piñera auðgaðist mikið á níunda áratugnum þegar hann kynnti greiðslukort til leiks í Chile og er hann einn af auðugustu mönnum landsins. Á síðasta ári skipaði hann 745. sætið á lista Forbes yfir ríkustu menn heims.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×