Innlent

Ákærður fyrir manndráp á Hagamel

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Maðurinn huldi ekki andlit sitt þegar hann var leiddur fyrir dómara í september þegar krafist var gæsluvarðhalds yfir honum.
Maðurinn huldi ekki andlit sitt þegar hann var leiddur fyrir dómara í september þegar krafist var gæsluvarðhalds yfir honum. Vísir/anton brink
Héraðssaksóknari hefur ákært Khaled Cairo, 38 ára gamlan karlmann frá Jemen, fyrir manndrápið á Sanitu Brauna á heimili hennar á Hagamel í september síðastliðnum. Ákæra var gefin út á hendur manninum þann 12. desember og verður málið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á miðvikudag.

Er maðurinn ákærður fyrir brot á 211. grein almennra hegningarlaga þar sem lágmarksrefsing er fimm ára fangelsi en þyngsta refsing ævilangt fangelsi. Hér á landi er algengast að menn séu dæmdir í 16 ára fangelsi fyrir manndráp.

Í ákærunni, sem Vísir hefur undir höndum, kemur fram að maðurinn hafi veist með ofbeldi að Sanitu og slegið hana ítrekað í andlit og höfuð með tveimur til þremur glerflöskum sem og slökkvitæki sem vó tæp 10 kíló.

Þá á hann að hafa hert kröftulega að hálsi hennar með þeim afleiðingum að Sanita lést vegna skerts blóðstreymis til heila. Fram hefur komið að maðurinn játaði í yfirheyrslum hjá lögreglu að hafa veist að Sanitu og meðal annars veitt henni höfuðhögg með slökkvitæki.

Sanita var 44 ára gömul og frá Lettlandi. Hún lét eftir sig þrjú börn og foreldra. Í ákæru eru gerðar kröfur um miskabætur, annars vegar af hálfu foreldra hennar og hins vegar af hálfu barna hennar. Hljóða miskabótakröfurnar upp á samtals 15 milljónir króna.


Tengdar fréttir

Játar að hafa ráðist á Sanitu

Maðurinn sem situr í gæsluvarðhaldi grunaður um að hafa orðið Sanitu Brauna að bana í vesturbæ Reykjavíkur þann 21. september síðastliðinn, hefur játað við yfirheyrslur að hafa veist að henni.

Sætir geðrannsókn eftir manndrápið á Hagamel

Maðurinn sem játaði að hafa orðið Sanitu Brauna að bana á Hagamel fyrir þremur vikum sætir nú geðrannsókn þar sem metið er hvort hann er sakhæfur. Lögreglumaðurinn Grímur Grímsson segir rannsókn málsins á lokametrunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×