Erlent

Mikill viðbúnaður vegna „alvarlegs atviks“ á herstöð í Bretlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Herstöðin í Mildenhall.
Herstöðin í Mildenhall. Vísir/AFP
Lögreglan í Suffolk í Bretlandi handtók í dag mann sem er sagður hafa reynt að keyra í gegnum öryggistálma á herstöð sem flugher Bandaríkjanna stjórnar í Mildenhall. Hermenn við öryggisvörslu á herstöðinni skutu á manninn og hefur hann verið handtekinn. Lögreglan segir hann hafa hlotið skurði og marbletti en ekki skotsár.

Enginn annar varð fyrir meiðslum.

Öllum í stöðinni var skipað að halda kyrru fyrir, læsa hurðum og slökkva ljós. Sömuleiðis var almenningur beðinn um að halda sig frá svæðinu. Herstöðin er nú sögð örugg.

Samkvæmt frétt BBC er flugstöðin að mestu notuð til flutninga og af sérsveitum. Um 3.200 bandarískir hermenn starfa þar auk um 500 Breta. Til stendur að færa alla starfsemi sem fer þar fram til Þýskalands árið 2024.

Breskur maður var dæmdur í fyrra fyrir að skipuleggja hryðjuverkaárásir á fimm herstöðvar þar sem bandaríski herinn hefur aðsetur. Þar á meðal herstöðina í Mildenhal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×