Erlent

Assad kallar Kúrda „svikara“

Samúel Karl Ólason skrifar
Bashar al-Assad, forseti Sýrlands.
Bashar al-Assad, forseti Sýrlands. Vísir/AFP
Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, kallaði sýrlenska Kúrda, sem stjórna rúmum fjórðungi Sýrlands, svikara í dag. Forsetinn, sem hefur notið stuðnings Rússlands og Íran, sagði þá þjóna hagsmunum annarra ríkja, aðallega Bandaríkjanna, og að í rauninni væru þeir ekki Kúrdar. Heldur svikarar.

Sýrlenskir Kúrdar eru um fimmtán prósent af öllum íbúum Sýrlands og með stuðningi Bandaríkjanna og annarra ríkja hafa þeir leitt regnhlífarbandalagið Syrian Democratic Forces eða SDF. Bandalagið hefur svo rekið vígamenn Íslamska ríkisins á brott frá stórum svæðum í Sýrlandi.

Hér má sjá yfirlit yfir stöðuna í Sýrlandi eins og hún var um mánðarmótin. Sömuleiðs er farið yfir þau ríki sem hafa beitt sér þar í landi.Vísir/GraphicNews
Nú hefur Íslamska ríkið þó verið sigrað að mestu leyti í Sýrlandi.

Samkvæmt frétt AFP fréttaveitunnar
hafa háttsettir meðlimir í ríkisstjórn Assad áður gefið í skyn að Kúrdar gætu fengið sjálfsstjórn að einhverju leyti. Nýjasta yfirlýsing Assad þykir þó ekki gefa mikla von á viðræður á milli ríkisstjórnar Kúrda og Assad í framtíðinni.

Þá hefur Assad áður staðhæft að hann muni ná aftur stjórn á öllu Sýrlandi.

Í tilkynningu á samfélagsmiðlum forsetans sagði hann einnig að enginn árangur hefði náðst með þriggja ára viðræðum sem Sameinuðu þjóðirnar hafa staðið fyrir.

Borgarastyrjöld Sýrlands hófst fyrir nærri því sjö árum og hundruð þúsunda hafa dáið í átökum og vegna þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×