Innlent

Færri hafa leitað til Mæðrastyrksnefndar í ár en í fyrra

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Anna H. Pétursdóttir, formaður Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur.
Anna H. Pétursdóttir, formaður Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur. Vísir/Sigurjón
Færri heimili hafa óskað eftir aðstoð Mæðrastyrksnefndar í ár en undanfarin ár og eru umsóknir fyrir jólin tvö til þrjú hundruð færri en í fyrra. Þróunin er í rétta átt að sögn formanns nefndarinnar.

Í fyrra óskuðu um 1.200 heimili eftir aðstoð Mæðrastyrksnefndar fyrir jólin en í ár eru umsóknirnar á milli 900 til 1.000. Anna H. Pétursdóttir, formaður Mæðrastyrksnefndar, segir umsóknum um aðstoð hafa farið jafnt og þétt fækkandi undanfarin ár. Telur hún að fækkun umsókna megi rekja til betra ástands í þjóðfélaginu.

„Það eru færri atvinnulausir og þar með þurfa færri á aðstoð að halda. Þó að það verði því miður alltaf svoleiðis að það eru einhverjir sem þurfa á aðstoð að halda,” segir Anna. Þá kunni sterkari kaupmáttur einnig að hafa sitt að segja.

Undirbúningur úthlutunarinnar hefur staðið yfir frá því í byrjun desember en það eru alfarið sjálfboðaliðar sem bjóða fram krafta sína við undirbúninginn. Bæði einstaklingar og fyrirtæki leggja svo söfnuninni lið með einum eða öðrum hætti. Guðlaug Jónína Aðalsteinsdóttir hefur starfað sem sjálfboðaliði í á annan áratug. Hún segir sjálfboðaliðastarfið vera ómissandi í aðdraganda jólanna.

„Það er bara svo gott að geta gert öðrum gott og ég segi alltaf að ólaunuð vinna veitir manni miklu meiri gleði heldur en þessi sem er launuð,” segir Guðlaug glöð í bragði.

Úthlutunin fer fram á miðvikudag en þeir sem vilja geta enn lagt Mæðrastyrksnefnd lið. Hægt er að setja gjafir til barna undir jólatrén í Kringlunni og í Smáralind og þeir sem vilja gefa matargjafir eða leggja söfnuninni lið með öðrum hætti geta sett sig í samband við Mæðrastyrksnefnd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×