Íslenski boltinn

Reykjavíkurborg leggur gervigras í Árbænum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Reykjavíkurborg mun leggja gervigras ásamt nauðsynlegu undirlagi með snjóbræðslukerfi á aðalvöll Fylkis í Árbænum. Borgin mun eignast völlinn og sjá um rekstur hans.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem félagið og Reykjavíkurborg sendu frá sér í dag.

Einnig mun Reykjavíkurborg taka að sér að koma upp vökvunarkerfi á aðalvöllinn og setja upp flóðlýsingu, ásamt því að endurnýja girðingar, vallarklukku og annað sem tengis vellinum.

Fylkir mun sjá um endurbætur á áhorfendasvæðinu.

Viðræður um að fá gervigras í Árbæinn hafa staðið yfir í einhvern tíma, en greint var frá því í byrjun árs að forráðamenn Fylkis vonuðust eftir því að fá gervigrasið á fyrir síðasta tímabil.

Þá kemur fram í yfirlýsingunni að við þessar breytingar muni æfingasvæið Fylkis á milli Hraunbæjar og Bæjarháls ekki notað til æfinga eftir að gervigrasið verður komið á heldur mun Reykjavíkurborg selja byggingarrétt á þeim lóðum.

Yfirlýsing Fylkis og Reykjavíkurborgar:

Reykjavíkurborg tekur að sér að leggja gervigras ásamt nauðsynlegu undirlagi með snjóbræðslukerfi og vökvunarkerfi á aðalvöll félagsins og koma fyrir flóðlýsingu. Einnig verður annað sem tilheyrir vellinum svo sem girðingar, vallarklukka, mörk og varamannaskýli endurnýjað. Fylkir sér um að ljúka ýmsum nauðsynlegum framkvæmdum við völlinn í tengslum við áhorfendasvæði.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdum verði lokið seinnihluta næsta árs. Völlur og búnaður verður eign Reykjavíkurborgar að framkvæmdum loknum og mun borgin annast rekstur vallarins, líkt og er með flesta gervigrasvelli á svæðum íþróttafélaga í borginni.

Æfingasvæði milli Hraunbæjar og Bæjarháls sem Fylkir hefur nýtt verður ekki notað sem slíkt eftir að gervigras er komið á aðalvöll félagsins. Reykjavíkurborg mun selja byggingarrétt á þeim lóðum sem þar losna.

Sameiginlegur stafshópur Fylkis og Reykjavíkurborgar vinnur að þarfagreiningu vegna samstarfssamnings um framtíðaraðstöðu félagsins og á tillaga að liggja fyrir í febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×