Erlent

Twitter lokar á breska hægriöfgamenn sem Trump áframtísti

Kjartan Kjartansson skrifar
Fransen (t.v.) og Golding (t.h.) geta ekki lengur dreift hatri á Twitter.
Fransen (t.v.) og Golding (t.h.) geta ekki lengur dreift hatri á Twitter. Vísir/AFP
Stjórnendur félagsmiðilsins Twitter hafa lokað á reikninga tveggja leiðtoga breska hægriöfgahópsins Bretlands fyrst. Donald Trump Bandaríkjaforseti áframtísti áróðurmyndböndum gegn múslimum frá hópnum í síðasta mánuði og virðast þau nú horfin.

Paul Golding og Jayda Fransen, tveir leiðtoga Bretlands fyrst, geta ekki lengur tíst og fyrri tíst þeirra eru ekki lengur sjáanlega, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Sama gildir um opinberan Twitter-reikning samtakanna.

Twitter hefur nýlega breytt notendaskilmálum sínum um hatursorðræðu. Í október tilkynntu stjórnendur miðilsins að þeir myndu grípa til harðari aðgerða gegn þeim sem styddu ofbeldi. Nú segjast þeir einnig ætla að loka á þá sem lýsa yfir stuðningi við hópa sem styðja ofbeldi.

Leyfilegt verður að birta haturstákn eins og hakakross nasista en slíkar myndir verða faldar með síu fyrir „viðkvæmt efni“ sem notendur þurfa að slökkva á til að sjá táknin. Notendur mega hins vegar ekki nota tákn af þessu tagi á prófílsíðum sínum.

Markmiðið er að draga úr níði og hatri á samfélagsmiðlinum. Þeir notendur sem senda frá sér ofbeldishótanir, kynþáttaníð eða annað hatur verða bannaðir varanlega á síðunni.

Mikla athygli vakti þegar Trump Bandaríkjaforseti áframtísti myndböndum sem Fransen frá Bretlandi birti á Twitter-síðu sinni í nóvember. Myndböndin drógu upp dökka mynd af múslimum en efni þeirra hefur verið sagt misvísandi eða hreinlega rangt. Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, sagði að það hefði verið „rangt af“ Trump að endurtísta myndböndunum.

BBC segir að Fransen og Golding hafi verið handtekin í síðustu viku fyrir að kynda undir hatri á Norður-Írlandi.


Tengdar fréttir

Trump forseti dreifði boðskap fasista til tugmilljóna fylgjenda

Donald Trump Bandaríkjaforseti endurtísti þremur myndböndum frá breska stjórnmálaflokknum Britain First. Um er að ræða stjórnmálaflokk sem hefur ítrekað falsað myndir og birt myndbönd undir falskri yfirskrift til að koma höggi á múslim




Fleiri fréttir

Sjá meira


×