Innlent

Vatn rennur yfir þjóðveginn á Breiðamerkursandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá brúnni yfir Jökulsá á Breiðamerkursandi. Myndin er úr safni.
Frá brúnni yfir Jökulsá á Breiðamerkursandi. Myndin er úr safni. Vegagerðin
Vegagerðin biður vegfarendur um að að sýna aðgát þegar þeir aka þjóðveg 1 um Breiðamerkursand en þar rennur nú mikið vatn yfir veginn. Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun vegna mikilla rigningar á Suður- og Suðausturlandi.

Spáð er mikilli rigningu, einkum í kringum Mýrdals- og Eyjafjallajökul og búast má við vatnavöxtum á svæðinu.

Annars er greiðfært víða á Suðvesturlandi en á Suðurlandi er víðast hvar hálka eða hálkublettir og flughálka á nokkrum köflum.

Á Vesturlandi er víða greiðfært á láglendi og hálkublettir á fjallvegum.

Það er hálka eða hálkublettir á Vestfjörðum og flughálka á Bjarnarfjarðarhálsi. Ófært er yfir Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði.

Á Norðurlandi vestra er þjóðvegur 1 greiðfær en hálka er á flestum útvegum og hálkublettir á Siglufjarðarvegi. Hálka eða hálkublettir eru á Norðausturlandi.

Hálka er á vegum á Austurlandi. Þæfingsfærð er á Öxi og hálka með suðausturströndinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×