Lífið

Glímdi við kvíða og átti stundum ekki fyrir mat: Framleiðir nú eigin snyrtivörulínu

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Ásdís lætur ekki deigan síga þó á móti blási.
Ásdís lætur ekki deigan síga þó á móti blási. Vísir / Úr einkasafni

„Ég man enn daginn sem ég fékk lánaðar 150 þúsund krónur því ég vildi opna netverslun. Þá voru þær alls ekki eins margar og þær eru í dag og ég gerði allt sjálf því ég hafði ekki efni á að fá aðstoð. Og guð, hvað þetta var erfitt og flókið,“ segir Ásdís Inga Helgadóttir, eigandi verslunarinnar Deisy Makeup.

Ásdís opnaði vefverslunina árið 2014 og er nú einnig með verslun í Borgartúni. Fyrir tveimur árum fór hún síðan að skoða hvort hún gæti búið til sínar eigin snyrtivörur undir nafni Deisy Makeup. 

„Ég vildi gera eitthvað sem ég hafði gaman að og gæti selt á betra verði. Ég fann því verksmiðjur erlendis sem hjálpuðu mér,“ segir Ásdís og úr varð varalitalína með nafninu Deisy Makeup. Ásdís efaðist um hvort að línan myndi heilla íslenska neytendur, en önnur varð raunin.

„Ég man þegar að fyrsta varan kom. Þá vonaði ég svo innilega að ég myndi selja fimm stykki. Ég fæ ennþá gæsahúð að hugsa til þess að varan seldist upp á sólahring. Í dag hef ég selt nokkur þúsund varaliti og er komin með nokkra sölustaði um landið.“

Aríel Arna, sem í dag er fimm ára, kyssir óléttubumbu móður sinnar, Ásdísar, þegar hún gekk með annað barn sitt, drenginn Sesar Pálma, sem í dag er fjögurra mánaða. Mynd / Úr einkasafni

„Litla ég sem átti stundum ekki að borða á eigin snyrtivörulínu“

Ásdís lét ekki þar við sitja og kynnti nýverið nýja snyrtivörulínu, hugarfóstrið Iceland Cosmetics.

„Sú lína er algjörlega mín frá A til Ö og mér finnst ennþá óraunverulegt að þetta sé orðið að veruleika. Að búa til eitthvað sjálfur kostar rosalega mikinn pening og það fer ótrúlega mikill tíma í þróunarvinnu,“ segir Ásdís, en að þessu sinni lagið hún áherslu á að línan yrði framleidd á Íslandi.

„Mig langaði alltaf að búa til eitthvað frá grunni og að allt yrði gert á Íslandi, bæði vegna þess að þá veit ég 100% hvað er í vörunni en einnig til að styrkja íslenskt atvinnulíf því margir koma að framleiðslu á einni vöru. Draumur minn var að gera vöru sem enginn hafði gert áður á Íslandi og væri jafnvel ekki einu sinni til sölu frá erlendum aðila,“ segir Ásdís, stolt af sköpun sinni.

„Okkur tókst að búa til fyrsta íslenska baðsaltið sem freyðir. Já, það freyðir og er með dásamlegum kókosilmi og ég næ rétt svo að koma því út fyrir jólin. Í línuna er einnig komið makeup setting sprey, burstahreinsir og þvottastykki til að hreinsa förðun. Fleiri vörur eru ennþá í þróun og fullt af nýjum og spennandi vörum væntanlegar. Litla ég sem átti stundum ekki að borða á eigin snyrtivörulínu.“

Ásdís með Sesar Pálma litla. Vísir / Úr einkasafni

Þú átt aldrei eftir að verða neitt!

Ásdís ákvað að læra förðun árið 2005 en margir undruðu sig á þeirri ákvörðun. 

„Það vakti ekki mikla hrifningu því þetta var alls ekki jafn flott og það þykir í dag. 

Ég fékk spurningar eins og: Hvað ætlarðu að gera? Þú átt aldrei eftir að verða neitt! En ég fann að þetta var það sem ég vildi gera, enda gekk mér ekkert alltof vel í skóla því áhuginn þar var ekki neinn. Mér finnst fyndið að segja frá því að ég féll tvisvar í stærðfræði, en í dag geri ég lítið annað en að reikna verð og kaupa vörur í allskonar gjaldmiðlum. Bara ef stærðfræðibókin hefði verið reiknuð í varalitum,“ segir Ásdís og hlær.

Fór tvisvar í Kvennaathvarfið

Bóknámið er ekki það eina sem hefur vafist fyrir Ásdísi í gegnum tíðina. Hún átti erfiða æsku sem teygði sig yfir á unglingsárin. Ásdís vill ekki fara út í smáatriði en segir að uppvöxturinn hafi styrkt hana mikið.

„Það sem mér fannst erfiðast á þeim tíma var að allt sem gekk á var eitthvað utanaðkomandi sem ég hafði enga stjórn á og gat lítið gert til þess að laga það. En ég finn í dag að allt sem gerðist styrkti okkur systkinin og mömmu, enda stöndum við saman í einu og öllu í dag. Ég fór tvisvar sinnum í Kvennaathvarfið og hitti þar alls konar konur og börn og ég get ekki beðið eftir að geta styrkt ýmis málefni sjálf,“ segir Ásdís og heldur áfram á einlægum nótum.

„Af öllu fólkinu sem olli mér vanlíðan og kvíða lærði ég hvernig ég vildi ekki koma fram við aðra. Ég reyni eftir bestu getu að vera betri manneskja í dag en ég var í gær. Ég var mjög óörugg lengi og treysti engum, þá sérstaklega ekki karlmönnum. Ég mældi hjartsláttinn minn nokkrum sinnum á dag því ég var alltaf að deyja. Ég var mjög hrædd við að eignast börn þvi ég taldi að ég gæti aldrei orðið nógu góð mamma,“ segir Ásdís, sem er ánægð með lífið í dag, þó hún finni stundum fyrir kvíða.

Ásdís er stolt af nýju vörulínunni sinni, Iceland Cosmetics. Vísir / Úr einkasafni

„Í dag á ég yndislegan mann sem ég hef verið með í ellefu ár. Hann styður við bakið á mér í einu og öllu og ég held að hann elski greinilega hvað ég er klikkuð stundum. Ég sagði einu sinni alltaf að ég væri svo heppin að eiga hann, en það er ekki heppni. Ég valdi hann og hann mig. Við eigum tvö börn sem ég elska meira en allt. Ég er ennþá oft skrýtin og fæ kvíða en læt það ekki stoppa mig. Ég er líka oft fyndin og skemmtileg og passa mig að hugsa ekki alltaf bara neikvætt um mig því það er svo auðvelt. En ég þurfti virkilega að vinna í sjálfri mér og mínum kvíða og finna ástríðu fyrir einhverju til þess að dreifa huganum,“ segir Ásdís. 

„Þú getur allt sem þig langar ef þú trúir því“

Hún segir að förðun sé eins konar hugleiðsla, jafnvel meðferð fyrir sig.

„Ég fann fljótt að ég gat látið öðrum liða vel þegar ég var að farða. Segja þeim hvað mér fannst fallegt í fari þeirra og átt góða stund með kúnnunum. Mér fannst það ómetanlegt.“

Ásdís er þakklát fyrir viðskiptavini sína og segir að þeir hvetji hana til að gera betur.

„Um leið og eitt skref er búið er ég strax komin með næsta plan. Stundum pirrar það mig því mér finnst ég aldrei nógu dugleg en ég hugsa að ef ég væri ekki svona myndi ekki mikið gerast hjá mér. Það hvetur mig áfram þegar ég finn að fólk fer að gera svipaða hluti og ég hef verið að gera, þá veit ég að ég er að gera eitthvað rétt,“ segir Ásdís og bætir við að hún hefði aldrei náð á þann stað sem hún er á í dag nema fyrir stuðning og hjálp frá vinum og fjölskyldu.

En hvað vill Ásdís segja við þá sem sjá ekki út úr svartnættinu en vilja láta draumana rætast?

„Ég hef verið á stað þar sem allt er ómögulegt og mér hefur fundist ég föst í myrkri og enginn leið út. Mig langar svo að segja fólki að það er alveg sama hvaðan þú kemur, þú ræður hvert þú stefnir. Þú getur allt sem þig langar ef þú trúir því.“
 Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.