Körfubolti

Golden State þurfti framlengingu til að vinna Lakers

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kevin Durant í leiknum í nótt.
Kevin Durant í leiknum í nótt. Vísir/Getty
Kevin Durant var hetja Golden State Warriors er liðið hafði betur gegn LA Lakers á útivelli, 116-114, í framlengdum leik. Durant skoraði sigurkörfuna þegar sjö sekúndur voru eftir af leiknum.

Þar með tókst Golden State að spilla gleðinni á sögulegu kvöldi í Los Angeles þar sem að heimamenn heiðruðu Kobe Bryant með því að hengja treyjur hans, númer 24 og 8, upp í rjáfur hallarinnar.



Þetta var níundi sigur Golden State í röð en stigahæstur hjá liðinu var Klay Thompson með 17 stig auk þess sem hann tók tíu fráköst. Thompson og Durant voru ískaldir framan af í leiknum og klikkuðu á 31 af fyrstu 40 skotum sínum í leiknum samanlagt.

Þeir létu hins vegar ekki segjast og Durant nýtti öll fjögur skotin sín í framlengningu leiksins. Lonzo Ball fékk tækifæri til að skora í lokin en David West varði skot hans. Ball var með sextán stig, sex stoðsendingar og sex fráköst.

Stephen Curry spilaði ekki með Warriors í nótt vegna ökklameiðsla, né heldur Draymond Green sem er að glíma við meiðsli í öxl.

Boston vann Indiana, 112-111, þar sem Terry Rozier tryggði gestunum sigurinn þegar hann náði að stela boltanum og troða honum svo þegar 1,5 sekúndur voru eftir af leiknum. Kyrie Irving skoraði 30 stig fyrir Boston sem var fimm stigum undir þegar 31 sekúnda var eftir af leiknum.

Irving setti niður tvö þriggja stiga skot á ótrúlegum lokakafla leiksins.



Oklahoma City vann Denver, 95-94. Russell Westbrook skoraði 38 stig, þar af sextán í fjórða leikhluta og sigurkörfuna af vítalínunni þegar 2,3 sekúndur voru eftir af leiknum.

Úrslit næturinnar:

New Orleans - New York 109-91

Indiana - Boston 111-112

Atlanta - Miamia 110-104

Chicago - Philadelphia 117-115

Houston - Utah 120-99

Minnesota - Portland 108-107

Oklahoma City - Denver 95-94

Dallas - Phoenix 91-97

San Antonio - LA Clipperes 109-91

LA Lakers - Golden State 114-116

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×