Innlent

Byggja upp í Arnarfirði þegar Mjólká verður miðja Vestfjarða

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá Mjólkárvirkjun í botni Arnarfjarðar.
Frá Mjólkárvirkjun í botni Arnarfjarðar. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Fjárfestar skoða nú svæðið í botni Arnarfjarðar sem valkost undir mikla atvinnuuppbyggingu. Með Dýrafjarðargöngum verður Mjólká miðja byggðanna á Vestfjörðum. Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2 og í þættinum „Um land allt“.

Mjólkárvirkjun er í dag einn afskekktasti vinnustaður Íslands, innilokuð á vetrum milli Hrafnseyrarheiðar og Dynjandisheiðar. Með jarðgöngunum, sem verið er að grafa skammt frá, opnast ný sýn og ný tækifæri. Virkjunin verður þá hluti af atvinnusvæði Ísafjarðarbæjar.

Stöðvarstjórinn þekkir vel þessa einangrun.

Steinar Jónasson, stöðvarstjóri Mjólkárvirkjunar. Ofarlega til vinstri á myndinni opnast munni Dýrafjarðarganga. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

„Þetta svæði lokast svona frá byrjun desember, má segja eiginlega, og við erum háðir mokstri frá október og fram í desember, - og kannski svona fram undir jól, - þá lokast. Og þetta hefur kannski ekki opnast fyrr en í apríl aftur hingað inn á svæðið,“ segir Steinar Jónasson, stöðvarstjóri Mjólkárvirkjunar, en þá taka þeir bát frá Bíldudal í vinnuna. 

Ráðamenn Arnarlax skoða nú þann möguleika að reisa stóra seiðaeldisstöð við Mjólká.

Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax á Bíldudal. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

„Þegar göngin koma og opnast hér á milli þá er Mjólká miðsvæðis á Vestfjörðum. Og þar er gríðarlegt vatn sem við þurfum á að halda við uppbyggingu á seiðaeldi.

Þannig að við höfum áhuga á að skoða það frekar, já,“ segir Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax á Bíldudal.

Kort/Hlynur Magnússon, Stöð 2.

Kortið sýnir hvernig svæðið í kringum Mjólkárvirkjun opnast með göngunum sem miðjan á milli Ísafjarðar og Patreksfjarðar. Víkingur segir jafnframt nauðsynlegt að vegurinn um Dynjandisheiði verði byggður upp. 

„Þetta er bara alger bylting. Mjólká verður í raun miðsvæðis, og Þingeyri miðsvæðis hérna á Vestfjörðum. Það er það sem við höfum alltaf sagt. Við þurfum á öllum þorpunum að halda hér í kring.

Og það verður alveg jafn mögulegt fyrir fólk á Þingeyri eða Ísafirði eða hérna á suðursvæðinu að vinna til dæmis eins og þarna,“ segir Víkingur. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Stærsta iðnaðarsvæðið við Mjólkárvirkjun

Flest iðnaðarsvæði í aðalskipulagsáætlunum sveitarfélaga á Vestfjörðum eru skilgreind fyrir tengivirki og smávirkjanir. Stærsta iðnaðarsvæði Vestfjarða er 156 ha svæði við Mjólkárvirkjun í Arnarfirði. Þetta kemur fram í drögum að greinargerð um stöðu og þróun skipulagsmála sem Skipulagsstofnun hefur tekið saman. Innan þéttbýlis á Bolungarvíkur er 14 ha iðnaðarsvæði þar sem þegar er starfsemi og rými fyrir framtíðarstarfsemi. Þrjú önnur iðnaðarsvæði 0,3-2,6 ha eru á Bolungarvík fyrir léttan iðnað, geymslusvæði gáma, virkjun og tengivirki. Í Strandabyggð er 6,7 ha iðnaðarsvæði fyrir fiskeldi og um 8 ha fyrir Blævardalsárvirkjun og lón og 2,5 ha fyrir Þverárvirkjun. Á Hólmavík er óbyggt 1,9 ha iðnaðarsvæði.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.