Handbolti

Seinni bylgjan: Valskonur áberandi í úrvalsliðunum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Valur hefur enn ekki tapað leik í Olís deild kvenna
Valur hefur enn ekki tapað leik í Olís deild kvenna
Valskonur hafa farið á kostum í Olís deild kvenna í vetur og hefur það ekkert farið framhjá sérfræðingum Seinni bylgjunnar, en þeir gerðu upp tvær umferðir úr kvennadeildinni í gærkvöld.

Diana Satkauskaite var frábær í sgiri Vals á Stjörnunni í 11. umferðinni og fyrir þá frammistöðu var hún valin leikmaður umferðarinnar.

Hún var einnig í úrvalsliði umferðarinnar, og í úrvalsliði 12. umferðarinnar, það virðist engin geta skákað Diönu í vinstri skyttustöðunni.

Með henni í úrvalsliði 11. umferðar voru liðsfélagi hennar Chantal Pagel í markinu, Sigrún Jóhannsdóttir í vinstra horninu, Karólína Bæhrenz í hinu horninu, Framkonurnar Hildur Þorgeirsdóttir og Elísabet Gunnarsdóttir og Sandra Erlingsdóttir í leikstjórnendastöðunni. Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals, þjálfar liðið.

Diana var heldur ekki eina Valskonan í úrvalsliði 12. umferðar, þar var Birta Fönn Sveinsdóttir með henni vinstra megin. Hægri hliðin var skipuð Stjörnukonunum Þórey Önnu Ásgeirsdóttur og Hönnu Guðrúnu Stefánsdóttur. Lovísa Thompson fór með leikstjórnendastöðuna og Framararnir Elísabet Gunnarsdóttir og Guðrún Ósk Maríasdóttir fullkomnuðu liðið. Þjálfari Fram, Stefán Árnason, var þjálfari umferðarinnar.

Leikmaður 12. umferðar Olís deildar kvenna var Elísabet Gunnarsdóttir fyrir framúrskarandi frammistöðu í sigri Fram á ÍBV.

Karlarnir eru komnir aðeins lengra inn í sitt mót, en 14. umferðin kláraðist í gær.

Þar fékk Halldór Jóhann Sigfússon að þjálfa úrvalsliðið eftir sigur FH í Hafnarfjarðarslagnum. Í liðinu var lærisveinn hans Ásbjörn Friðriksson, Eyjamennirnir Aron Rafn Eðvarðsson og Theodór Sigurbjörnsson, Kristinn Hrannar Bjarkason úr Aftureldingu, Valsmennirnir Ýmir Örn Gíslason og Anton Rúnarsson, og Sveinn Andri Sveinsson úr ÍR.

Ásbjörn Friðriksson var valinn leikmaður umferðarinnar, en hann dró FH liðið áfam með níu mörkum í stórleiknum í gærkvöld.

Leikmaður 11. umferðar kvenna
Leikmaður 12. umferðar kvenna og 14. umferðar karla
Lið 11. umferðar kvenna
Lið 12. umferðar kvenna
Lið 14. umferðar karla



Fleiri fréttir

Sjá meira


×