Erlent

Repúblikanar við það að umbylta skattkerfi Bandaríkjanna

Kjartan Kjartansson skrifar
Repúblikanar eru með meirihluta í báðum deildum Bandaríkjaþings. Fulltrúadeildin hefur nú samþykkt umdeilt skattafrumvarp.
Repúblikanar eru með meirihluta í báðum deildum Bandaríkjaþings. Fulltrúadeildin hefur nú samþykkt umdeilt skattafrumvarp. Vísir/AFP
Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti umdeild frumvarp um umfangsmestu breytingar á skattkerfinu í áratugi. Stefnt er að því að öldungadeildin greiði atkvæði um frumvarpið seint í kvöld. Skoðanakannanir benda til þess að frumvarpið sé almennt óvinsælt á meðal Bandaríkjamanna.

Repúblikanar hafa haldið því fram að frumvarpið feli í sér meiriháttar skattalækkanir fyrir stórfyrirtæki, smærri fyrirtæki og einstaklinga og að það eigi eftir að ýta undir hagvöxt. Gagnrýnendur frumvarpsins segja að það eigi þvert á móti eftir að stórauka fjárlagahalla ríkisins og að það hygli stóreignafólki á kostnað þeirra efnaminni, að því er segir í frétt BBC.

„Þingið stendur nú við þröskuld sögulegs tækifæris,“ sagði Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni  eftir að meirihluti repúblikana í fulltrúadeildinni samþykkti frumvarpið örugglega.

Atkvæðagreiðslan í öldungadeildinni verður tæpari en ekki fleiri en tveir repúblikanar mega ganga úr skaftinu ef þeir ætla að koma frumvarpinu í gegn.

Frumvarpið felur meðal annars í sér að stoðum verður kippt undan sjúkratryggingalögunum sem hafa verið kennd við Barack Obama, fyrrverandi forseta. Þrátt fyrir það hafa þingmenn repúblikana sem greiddu atkvæði gegn afnámi laganna lýst yfir stuðningi við skattafrumvarpið.

Ný skoðanakönnun CNN bendir til þess að 55% Bandaríkjamanna séu andsnúnir frumvarpinu. Um þriðjungur er því fylgjandi. Tveir af hverjum þremur svarendum telja frumvarpið koma þeim ríku betur en millistéttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×