Bíó og sjónvarp

Svanurinn vann til verðlauna í Kaíró

Atli Ísleifsson skrifar
Myndin byggir á samnefndri skáldsögu eftir Guðberg Bergsson.
Myndin byggir á samnefndri skáldsögu eftir Guðberg Bergsson. Sena
Kvikmyndin Svanurinn eftir Ásu Helgu Hjörleifsdóttur vann til verðlauna á kvikmyndahátíðinni í Kaíró í gær. Myndin vann til verðlauna í flokknum „Shadi Abdel Salam Prize for Best Film”.

Í tilkynningu frá Senu segir að myndin byggi á samnefndri verðlaunaskáldsögu eftir Guðberg Bergsson sem þýdd hafi verið á fjölda tungumála.

„Dómarar höfðu orð á því hversu grípandi og sannfærandi myndin væri og að hún hefði við sig sérstaka áferð og innra líf sem sjaldséð væri á hvíta tjaldinu.

Svanurinn er fyrsta kvikmynd Ásu Helgu í fullri lengd en hún lauk kvikmyndanámi frá Columbia háskólanum í New York árið 2013 og hafa stuttmyndir hennar vakið athygli og ferðast víða á kvikmyndahátíðum víða um heim.

Ása Helga Hjörleifsdóttir.sena
Framleiðendur eru Hlín Jóhannesdóttir og Birgitta Björnsdóttir  hjá Vintage Pictures en Birgitta tók við verðlaununum fyrir hönd Ásu Helgu. Meðal viðstaddra voru stórstjörnur á borð við Nicholas Cage, Hilary Swank og Adrien Brody sem öll fengu viðurkenningar á hátíðinni.

Sem endranær vakti frammistaða Grímu Valsdóttur sérsaka athygli, en hún leikur aðalhlutverkið, hina 9 ára gömlu Sól,“ segir í tilkynningunni.

Kvikmyndin verður frumsýnd á Íslandi í janúar næstkomandi.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×