Viðskipti innlent

Starfsmenn Vodafone eftir kaupin verða um 550

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Björn Víglundsson, Stefán Sigurðsson og Ingibjörg Pálmadóttir á starfsmannafundi 365 í morgun.
Björn Víglundsson, Stefán Sigurðsson og Ingibjörg Pálmadóttir á starfsmannafundi 365 í morgun. Vísir/Vilhelm
Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone, og Ingibjörg Pálmadóttir, forstjóri 365, ræddu við starfsmenn 365 í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Skaftahlíð í morgun. Tilefnið var kaup Vodafone á stórum hluta 365 sem gengið var frá í gærkvöldi en um tíu milljarða króna viðskipti er að ræða.

Allur hluti 365 færist yfir til Vodafone að frátöldu Fréttablaðinu og Glamour. Stöð 2, Bylgjan, X-ið, FM957, Vísir auk tilheyrandi auglýsinga- og áskriftardeilda færast yfir til Vodafone. 

Starf ritstjóra fréttahlutans sem fer undir hatt Vodafone, þ.e. Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar, verður auglýst á næstunni. Mun Capacent sjá um ferlið. Þangað til verður Kristín Þorsteinsdóttir áfram aðalritstjóri allra miðla fram að ráðningu nýs ritstjóra. Eftir það verður hún útgefandi og ritstjóri Fréttablaðsins.

Fréttablaðið mun á nýju ári setja í loftið nýjan vef, frettabladid.is. Efni úr Fréttablaðinu mun þó halda áfram að birtast á Vísi en samningur er þess efnis til tveggja ára. Sunna Karen Sigurþórsdóttir verður aðstoðarritstjóri á nýjum vef Fréttablaðsins.

Björn Víglundsson verður framkvæmdastjóri nýs sviðs hjá Vodafone sem heitir Miðlar. Hann ræddi sömuleiðis við starfsfólk í höfuðstöðvum 365 í morgun. Fundur með starfsmönnum Vodafone fór fram í hádeginu.

Starfsmenn hjá Vodafone eftir kaupin á stórum hluta 365 verður samanlagt um 550 manns eftir því sem fram kom í máli Stefáns í morgun. Starfsfólk mun ekki finna fyrir breytingum fyrr en á nýju ári. Stefnt er að því að öll starfsemi Vodafone verði á Suðurlandsbraut 8 innan tíðar.

Eins og fram kemur í fréttinni er Vísir frá og með deginum í dag í eigu Vodafone.



Tengdar fréttir

Tíu milljarða viðskipti

Vodafone tekur í dag við rekstri útvarps- og sjónvarpssviðs 365 ásamt visir.is og fjarskiptasviði 365.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×