Fótbolti

Ísland í D-riðli með Argentínu, Króatíu og Nígeríu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Aron Einar Gunnarsson fyrirliði íslenska landsliðsins fagnar hér á Laugardalsvelli þegar Ísland tryggði sér farmiðann til Rússlands.
Aron Einar Gunnarsson fyrirliði íslenska landsliðsins fagnar hér á Laugardalsvelli þegar Ísland tryggði sér farmiðann til Rússlands. vísir/ernir
Ísland verður í D-riðli með Argentínu, Króatíu og Nígeríu á HM í Rússlandi í knattspyrnu karla sumarið 2018. Þetta kom í ljós nú rétt í þessu en verið er að draga í riðla í Moskvu, höfuðborg Rússlands.

Fyrsti leikur Íslands verður við Argentínu laugardaginn 16. júní í Moskvu. Eins og eflaust flestir vita leikur einn besti knattspyrnumaður heims, Lionel Messi, með Argentínu og því munu strákarnir okkar mæta Messi í Moskvu daginn fyrir þjóðhátíðardaginn 17. júní.

Þeir mæta svo Nígeríu í Volgograd föstudaginn 22. júní og þriðjudaginn 26. júní mætum við okkar fornu fjendum Króötum í Rostov-on-Don.

Það má með sanni segja að riðillinn sé dauðariðill en Argentína er eitt besta knattspyrnulið heims. Ísland hefur aldrei mætt Argentínu á knattspyrnuvellinum.

Þá hefur Króatía reynst okkur erfiður mótherji en einhverjir muna eflaust eftir því að Króatar komu í veg fyrir að Íslendingar kæmust á HM 2014 þegar strákarnir töpuðu fyrir þeim í umspilinu 2013.

Við vorum síðan með þeim í riðli í undankeppninni fyrir HM í Rússlandi þar sem við töpuðum fyrir þeim 2-0 úti í Króatíu en sigruðum þá svo 1-0 heima í sumar.

Nígería er síðan þrefaldur Afríkumeistari en liðið vann þann titil árið 2013. Ísland hefur leikið einn lið við Nígeríu. Það var í vináttulandsleik í ágúst 1981 og unnum við leikinn 3-0.

Fréttin var síðast uppfærð klukkan 16:34.






Fleiri fréttir

Sjá meira
×