Erlent

Flynn sagður tilbúinn að bera vitni gegn Trump

Kjartan Kjartansson skrifar
Flynn gæti átt yfir höfði sér fimm ára fangelsi.
Flynn gæti átt yfir höfði sér fimm ára fangelsi. Vísir/AFP
ABC-fréttastofan leiðrétti frétt sína sem Vísir byggði fréttina hér að neðan á. Heimildarmaður ABC sagði að Trump hefði sagt Flynn að hafa samskipti við Rússa eftir að hann var kjörinn forseti en ekki í kosningabaráttunni. Fréttamaður ABC hefur verið settur í launalaust leyfi vegna mistakanna.

Fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta sem hefur verið ákærður fyrir að ljúga að alríkislögreglunni um fundi með Rússum er sagður tilbúinn að bera vitni gegn Trump, fjölskyldu hans og öðrum í Hvíta húsinu.

Fréttastofa ABC-fréttastöðvarinnar segist hafa heimildir fyrir því að Michael Flynn, sem var ráðgjafi Trump í kosningabaráttunni og starfaði stuttlega sem þjóðaröryggisráðgjafi hans, sé tilbúinn að bera vitni um að Trump hafi sem forsetaframbjóðandi beðið sig um að hafa samband við Rússa.

Greint var frá því í dag að Robert Mueller, sérstakur rannsakandi dómsmálaráðuneytisins, hefði ákært Flynn fyrir að ljúga um samskipti sín við rússneskan sendiherra á bak við tjöldin í fyrra. Flynn hefði jafnframt játað sekt með samningi sem hann gerði við saksóknara.

Flynn er nú sagður vinna með rannsakendum Mueller. Ákvörðun um það hafi hann tekið á síðasta sólahringum, meðal annars vegna vaxandi lögfræðikostnaðar. Hann hafi meðal annars selt húsið sitt til að standa undir kostnaðinum.

Vísbendingar hafa komið fram um að Flynn gæti hafa gerst sekur um fleiri brot en Mueller hefur nú ákært hann fyrir. Þannig hafi hann ekki gert greint fyrir störfum sínum í þágu erlendra ríkja, meðal annars fyrir tyrknesk stjórnvöld.

Ákæra Flynn er sú markverðasta sem hefur komið út úr rannsókn Mueller á afskiptum Rússa af forsetakosningunum og meintu samráði þeirra við framboð Trump fram að þessu. Áður hafði Mueller ákært þrjá starfsmenn framboðsins, þar á meðal Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóra Trump.

Flynn steig til hliðar sem þjóðaröryggisráðgjafi Trump innan við mánuði eftir að hann tók við starfinu eftir að í ljós kom að hann hefði ekki sagt rétt frá samskiptum sínum við Sergei Kislyak, sendiherra Rússa. Það er um þau samskipti sem Flynn er ákærður fyrir að hafa logið.

Sé það rétt að Flynn ætli að bera vitni um að Trump hafi persónulega gefið skipun um að koma á samskiptum milli framboðsins og Rússa varpar það nýju ljósi á ákvörðun Trump um að reka James Comey, forstjóra alríkislögreglunnar FBI, í vor.

Trump hafði beðið Comey um að láta rannsóknina á Flynn falla niður. Eftir að Trump rak Comey sagði hann ástæðuna hafa verið Rússarannsókn FBI.

Uppfært 2.12.2017 ABC leiðrétti upphaflegu frétt sína. Heimildarmaður stöðvarinnar segði að það hefði verið eftir að Trump var kjörinn en áður en hann tók við embætti sem Trump bað Flynn um að setja sig í samband við Rússa, ekki í kosningabaráttunni eins og upphaflega sagði í frétt ABC.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×