Viðskipti innlent

Beint flug á leiki Íslands komið í sölu

Birgir Olgeirsson skrifar
Ljóst er að margir munu vilja fylgja íslenska liðinu á HM karla í knattspyrnu.
Ljóst er að margir munu vilja fylgja íslenska liðinu á HM karla í knattspyrnu. Vísir/Getty
Nú er ljóst að Ísland leikur í D-riðli á Heimsmeistaramóti karla í knattspyrnu næsta sumar og margir farnir að huga að því hvernig á að komast á leikina.

Ísland mætir Argentínu, Nígeríu og Króatíu í D-riðli en Icelandair tilkynnti fyrir skömmu að sala sé hafin á beinu flugi með flugfélaginu á leiki Íslands í riðlakeppni á HM í Rússlandi.

Í tilkynningu frá Icelandair segir að um sé að ræða tveggja sólarhringa ferðir og innifalið sé beint flug, hótel í tvær nætur, ferðir til og frá flugvelli og á leikvanginn og fararstjórn.

Verðið er frá 175.000 kr. Í öllum tilvikum er flogið frá Íslandi daginn fyrir leik og komið til baka daginn eftir leik.

Ferðirnar þrjár eru eftirfarandi:

Flug til Moskvu á leik Íslands og Argentínu. Brottför er frá Keflavíkurflugvelli kl. 15:00 föstudaginn 15. júní og komið heim síðdegis sunnudaginn 17. júní.

Flug til Volgograd á leik Íslands og Nígeríu. Brottför er frá Keflavíkurflugvelli kl. 15:00 fimmtudaginn 21. júní og komið heim síðdegis laugardaginn 23. júní.

Flug til Rostov á leik Íslands og Króatíu. Brottför er frá Keflavíkurflugvelli kl. 15:00 mánudaginn 25. júní og komið heim síðdegis miðvikudaginn 27. júní.

Icelandair segir miða ekki innifalda í pakkanum þar sem þeir verði eingöngu fáanlegir á vef alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA, en sala þar hefst 5. desember næstkomandi.

Ferðaskrifstofan Gaman ferðir vonast til að geta sett ferðir sýnar á leiki Íslands í Rússlandi til sölu á mánudag. Samkvæmt upplýsingum frá Gaman ferðum er stefnt að því að fljúga á alla leikina.

Ferðaskrifstofan Úrval útsýn segist ætla að kynna ferðir eins fljótt og hægt er.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×