Erlent

Segir Flynn ekki hafa aðhafst neitt ólöglegt

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti á blaðamannafundi fyrir utan Hvíta húsið í dag.
Donald Trump Bandaríkjaforseti á blaðamannafundi fyrir utan Hvíta húsið í dag. Vísir/AFP
Donald Trump Bandaríkjaforseti segir fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa sinn, Michael Flynn, ekki hafa aðhafst neitt ólöglegt í kjölfar forsetakosninganna í fyrra.

Michael Flynn, þjóðaröryggisráðgjafi Trump í upphafi forsetatíðar hans, játaði í gær sök um að hafa logið að bandarísku alríkislögreglunni, FBI, um samskipti sín við rússneskan sendiherra. Robert Mueller, sérstakur rannsakandi dómsmálaráðuneytisins, lagði fram ákæru gegn honum.

Trump tjáði sig um málið á Twitter-síðu sinni í dag. Hann sagðist þar hafa þurft að reka Flynn „vegna þess að hann laug að varaforsetanum og FBI.“

Þá sagðist forsetinn ekki hafa haft „neitt að fela“ á því tímabili þegar ríkisstjórn hans tók við stjórnartaumunum eftir kosningar.

Ef rétt reynist virðist Trump viðurkenna að hann hafi verið meðvitaður um brot Flynn þegar hann bað Comey að hætta rannsókn og þegar hann svo rak Flynn vegna rannsóknarinnar

Flynn hefur nú samþykkt að vinna með yfirvöldum í rannsókninni á afskiptum Rússa af kosningunum og mögulegu samráði þeirra við framboð Trump. Vegna samningsins á Flynn yfir höfði sér mildari dóm en hann hefði annars fengið. Þetta hefur enn fremur kynt undir vangaveltum þess efnis að fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafinn búi yfir upplýsingum sem gætu leitt til ákæra á hendur fleirum innan ríkisstjórnar Trumps, að því er fram kemur í frétt BBC.

Flynn gæti átt yfir höfði sér fimm ára fangelsi fyrir að ljúga að FBI. Talið er að Mueller hafi upplýsingar um fleiri brot og því hafi Flynn kosið að gera samning um samstarf við rannsakendur.Vísir/AFP
Í ákærunni gegn Flynn kemur fram að „mjög háttsettur“ innanbúðarmaður í teymi Trumps eftir kosningar hafi fyrirskipað að hann setti sig í samband við rússneska embættismenn.

Trump hefur ítrekað þvertekið fyrir meint tengsl starfsfólks síns við Rússa. „Alls ekkert samráð,“ sagði Trump við fréttamenn þegar hann var á leið úr Hvíta húsinu í dag.

Forsetinn hefur lýst ásökunum um samráð við Rússa sem „nornaveiðum“. Sagðist hann meðal annars hafa rekið James Comey úr starfi forstjóra FBI vegna rannsóknarinnar á því. Á meðal þess sem Mueller rannsakar nú er hvort að Trump hafi reynt að hindra framgang réttvísinnar með brottrekstrinum.


Tengdar fréttir

Flynn sagður tilbúinn að bera vitni gegn Trump

Heimildir ABC-frétta herma að Flynn sé tilbúinn að bera vitni um að Trump hafi persónulega beðið hann um að koma á samskiptum við Rússa í kosningabaráttunni í fyrra.

Flynn lýsir sig reiðubúinn að aðstoða Mueller

Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Donald Trump Bandaríkjaforseta, lýsti sig sekan fyrir dómi af því að hafa logið að bandarísku alríkislögreglunni. Þá hefur hann samþykkt að aðstoða Robert Mueller, sérstakur rannsakandi dómsmálaráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×