Erlent

Öryggismál í brennidepli á fundum Tillerson í Evrópu

Atli Ísleifsson skrifar
Rex Tillerson er utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Rex Tillerson er utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Vísir/AFP
Dagskrá bandaríska utanríkisráðherrans Rex Tillerson er þétt þar sem hann mun sækja fjölda funda í Evrópu næstu dagana. Tillerson kemur til Brussel í dag.

Utanríkisráðherrann hefur mikið verið í fréttum í fjölmiðlum síðustu dagana eftir að New York Times greindi frá því að Donald Trump Bandaríkjaforseti ætli sér að reka Tillerson og skipa Mike Pompeo, yfirmann leyniþjónustunnar CIA, í hans stað í embætti utanríkisráðherra. Trump hefur sjálfur neitað fréttunum.

Ferð Tillerson til Evrópu hefst á fundum í höfuðstöðvum NATO og stofnunum Evrópusambandsins á þriðjudag og miðvikudag. Að þeim loknum heldur Tillerson til Vínar á fund Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu. Gert er ráð fyrir að hann muni eiga þar tvíhliða fund með rússneskum starfsbróður sínum, Sergei Lavrov.

Tillerson mun einnig eiga fundi í frönsku höfuðborginni París áður en hann leggur leið sína aftur heim til Bandaríkjanna.

Á fundunum verða öryggismál í brennidepli, meðal annars málefni Norður-Kóreu og ástandið í Úkraínu.


Tengdar fréttir

Segja að ekki standi til að reka Tillerson

Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna segist hafa verið fullvissað um það frá skrifstofu Bandaríkjaforseta að ekki standi til að reka utanríkisráðherrann Rex Tillerson.

Trump vill losa sig við Tillerson

Forsetinn er sagður hafa það í hyggju að losa sig við utanríkisráðherrann Rex Tillerson. Þeir eiga ekki skap saman og eru skoðanir þeirra í utanríkisstefnu ósamræmdar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×